Tyrknesk yfirvöld vara bandarísk stjórnvöld við því að fórna tengslum landanna tveggja vegna íslamska klerksins Fethullah Gülen sem þau segja að hafi staðið fyrir valdaránstilrauninni 15. júlí. Gülen er í útlegð í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum.
„Ef Bandaríkin framselja ekki Gülen fórna þau sambandinu við Tyrki í þágu hryðjuverkamanna,“ segir dómsmálaráðherra Tyrklands, Bekir Bozdag, en hann ræddi við fréttamenn í höfuðborg Tyrklands, Ankara, í morgun. Tyrkland hefur ítrekað farið fram á það við bandarísk yfirvöld að þau framselji klerkinn til Tyrklands þar sem hann á yfir höfði sér ákæru.