Yfirborð heimshafanna hækkar ár frá ári vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Ný rannsókn vísindamanna bendir til þess að risaeldgos á Filippseyjum hafi falið hraða yfirborðshækkunarinnar í gervihnattagögnum síðustu áratugina. Hækkun sjávaryfirborðsins sé í raun að hraða sér.
Samkvæmt mælingum bandarísku geimvísindastofnunarinnar hækkar yfirborð sjávar um 3,5 millimetra á ári. Loftslagsbreytingar sem komnar eru til af bruna manna á jarðefnaeldsneyti eins og olíu og kolum valda því að vatn fossar út í hafið frá jöklum á landi en hækkandi hiti veldur því einnig að vatnið þenst út.
Í umfjöllun Washington Post um rannsóknina kemur fram að vísindamenn hafi lengi gert ráð fyrir að þessi hækkun á stöðu sjávar muni hraða sér eftir því sem íshellur Grænlands og Suðurskautslandsins bráðna í meira mæli. Gervihnattamælingar hafa hins vegar ekki stutt þær spár fram að þessu.
Rannsóknin sem John Fasullo, loftslagsvísindamaður við Lofthjúpsrannsóknastöðina í Boulder í Colorado í Bandaríkjunum, og tveir starfsbræður hans fengu birta í Scientific Reports beindist að þessu misræmi.
Gögnin um yfirborð sjávar koma frá gervitunglum sem búin eru nákvæmum radarhæðarmælum. Þær athuganir hófust árið 1992 þegar TOPEX/Poseidon-gervitunglinu var skotið á loft en síðan hafa fleiri gervihnettir bæst í hópinn. Niðurstöður þeirra hafa valdið vísindamönnum heilabrotum því þær benda til þess að hægt hafi á yfirborðshækkun sjávar á milli tímabilsins 1993 til 2002 annars vegar og 2003 til 2012 hins vegar.
Fasullo og félagar komust að því að risavaxið eldgos í eldfjallinu Pinatubo á Filippseyjum árið 1991, rétt áður en fyrsta gervitunglinu sem kannaði yfirborð sjávar var skotið á loft, hafi brenglað myndina og falið þá hröðun sem hefur átt sér stað á hækkun sjávarmáls.
Gosefnin sem Pinatubo spjó út í lofthjúp jarðar endurvörpuðu geislum sólar út í geim og ollu tímabundinni kólnun. Við það drógust höfin saman og yfirborð sjávar lækkaði tímabundið, um allt að fimm til sjö millimetra.
Þegar kólnunaráhrifa eldgossins naut ekki lengur við hlýnaði hafið hins vegar hratt aftur og þandist út í sama mæli. Það olli því að yfirborðshækkun sjávar virtist sérstaklega hröð við upphaf gervitunglaathugananna og að sama skapi hægari í kjölfarið.
Vísindamennirnir spá því þess vegna að áhrif fráviksins vegna Pinatubo á mælingar á hraða hækkunar sjávarmáls muni hverfa með tímanum. Þegar þeir fjarlægðu áhrif eldgossins á sjávarstöðuna kom í ljós að hækkunin hafði í raun hraðað sér.
Fasullo segir enn óráðið hversu hratt sjávarmálshækkunin muni eiga sér stað. Það sé hins vegar ljóst að hröðunin eigi sér stað eins og spáð hafði verið. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) reiknar með um eins metra hækkun á yfirborði sjávar fyrir aldamót.
Ýmsir sérfræðingar hafa hins vegar varað við því að það mat gæti verið of varfærið og hækkunin verði í raun meiri með tilheyrandi hættu fyrir strandbyggðir og láglendissvæði.
Umfjöllun Washington Post um rannsóknina