Setur Bandaríkjastjórn afarkosti

Erdogan segist reiðubúinn til lögleiða dauðarefsinguna. Þúsundir hafa verið handteknir …
Erdogan segist reiðubúinn til lögleiða dauðarefsinguna. Þúsundir hafa verið handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar, þeirra á meðal kennarar, heilbrigðisstarfsmenn og blaðamenn. AFP

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sett stjórnvöldum vestanhafs afarkosti: annað hvort framselja þau Fethullah Gulen, sem Erdogan segir hafa staðið fyrir valdaránstilraun í landinu 15. júlí sl., ellegar stofna sambandi ríkjanna í hættu.

Gulen, klerkur og fyrrverandi bandamaður Erdogan, hefur dvalið í útlegð í Pennsylvaníu sl. áratug. Hann hefur neitað aðkomu að valdaránstilrauninni.

Það var ríkisfjölmiðillinn Anadolu sem hafði eftir forsetanum að Bandaríkin þyrftu að velja á milli diplómatísks sambands Tyrklands og Bandaríkjanna, og Gulen. „Fyrr eða síðar munu Bandaríkin velja. Annaðhvort Tyrkland eða FETO,“ sagði Erdogan en FETO er hreyfingin sem Gulen fer fyrir.

Í Tyrklandi eru FETO álitin hryðjuverkasamtök.

Erdogan hefur sagt að ef þingið ákveður að endurvekja dauðarefsinguna í landinu, muni hann staðfesta þau lög. Þar með yrði draumur Tyrkja um að ganga í Evrópusambandið að engu.

Nánar má lesa um málið hjá CNN.

mbl.is