Kynna haftatillögur á komandi dögum

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra segir að stjórnvöld muni á „komandi dögum“ kynna frekari skref til afléttingar hafta á fyrirtæki og einstaklinga. Markmiðið sé að ljúka málinu áður en landsmenn ganga að kjörborðinu.

Í samtali við fréttastofu Bloomberg segir forsætisráðherra að stjórnvöld hafi undirbúið nú í sumar „stór skref“ til þess að losa um höftin.

Hann segir að einstaklingar finni líklegast ekki mikið fyrir gjaldeyrishöftunum, fyrir utan þegar þeir afla sér erlends gjaldeyris fyrir utanlandsferðir. Ákveðnar takmarkanir séu fyrir hendi sem við sjáum nú fyrir endann á. Einnig verði stór skrefin stigin fyrir fyrirtæki.

Sigurður Ingi segir að höftunum verði líklegast aflétt í skrefum. Lokaútfærslan liggi ekki enn fyrir, en hún verði kynnt þegar hún er klár, á komandi dögum.

Hann segist jafnframt vilja gera meira til þess að lækka ríkisskuldir, meðal annars með því að selja hluti ríkisins í bönkunum. Fjármununum yrði þá varið til heilbrigðismála, menntamála og til þess að byggja upp innviði til þess að koma til móts við fjölgun ferðamanna til landsins.

Ætti að leiða til lægri vaxta

Enn eigi eftir að endurskipuleggja fjármálageirann. Ríkið eigi tvo af þremur stærstu bönkum landsins og sé það verkefni stjórnmálamanna á komandi mánuðum og árum að ákveða til hvaða aðgerða eigi að grípa.

Stöðugleikinn sem fylgir afléttingu hafta ætti að leiða til lægri vaxta í landinu, að sögn forsætisráðherra. Stýrivextir eru 5,75% og hvergi hærri í vestrænum ríkjum, en Seðlabanki Íslands hefur hækkað vexti til þess að reyna að halda verðbólgu í skefjum. Sigurður Ingi leggur áherslu á sjálfstæði seðlabankans, en segist þó spyrja sig hvort þörf sé á svo háum vöxtum.

„Hvort það sé einhvers konar lögmál að Ísland hafi vexti sem eru tveimur til þremur prósentustigum hærri en maður myndi telja að væri nauðsynlegt,” segir hann.

Frétt Bloomberg

mbl.is