Tyrknesk stjórnvöld gagnrýndu í dag harðlega ummæli mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna um að Tyrkir ættu að hætta að svala „hefndarþorsta“ sínum eftir valdaránstilraunina misheppnuðu í síðasta mánuð.
Stjórnvöld í Ankara höfnuðu jafnframt því að brotið væri á mannréttindum Tyrkja.
Mannréttindastjórinn, Zeid Ra'ad Al Hussen, biðlaði fyrr í vikunni til tyrkneskra stjórnvalda að virða réttindi þeirra sem hafa verið handteknir í kjölfar valdaránstilraunarinnar 15. júlí.
Tyrknesk stjórnvöld hafa staðið fyrir umfangsmiklum pólitískum hreinsunum undanfarnar vikur og meðal annars handtekið eða rekið úr starfi þúsundir hermanna, lögregluþjóna, dómara, blaðamanna og kennara.
Tanju Bilgic, talsmaður tyrkneska utanríkisráðuneytisins, sagði að ummæli Zeids væru óviðunandi.
„Það er í besta falli óheppilegt að embættismaður Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það verkefni að gæta mannréttinda, segist ekki hafa neina samúð með valdaræningjunum. Hann ætti í staðinn að fordæma þessa hryðjuverkamenn sem reyndu að gera blóðuga valdaránstilraun,“ sagði Bilgic.
Vesturlönd óttast að Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hafi notfært sér valdaránstilraunina til þess að styrkja valdastöðu sína.
Tyrknesk stjórnvöld hafa á móti sakað Vesturlönd um að sýna sér ekki nægilegan stuðning og fordæma valdaræningjana.
Bilgic segir að aðgerðir tyrkneskra stjórnvalda í kjölfar tilraunarinnar hafi verið í fullu samræmi við grundvallarreglur réttarríkisins og mannréttindi. Bauð hann meira að segja mannréttindastjóranum að heimsækja landið.