Gæti hægt á styrkingu krónunnar

Afnám fjármagnshafta var kynnt á fundi í gær af þeim …
Afnám fjármagnshafta var kynnt á fundi í gær af þeim Má Guð- mundssyni, Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni mbl.is/Golli

Næstu skref ríkisstjórnarinnar til losunar gjaldeyrishafta, sem kynnt voru í gær, eru líkleg til þess að draga úr gjaldeyriskaupum Seðlabanka Íslands og hægja á styrkingu krónunnar. Rúmur gjaldeyrisforði bankans sem og horfur á áframhaldandi innflæði gjaldeyris draga þó mjög úr líkum á því að krónan veikist umtalsvert þegar höftin verða rýmkuð.

Þetta er mat greiningardeildar Íslandsbanka.

Eins og kunnugt er kynntu stjórnvöld næstu áform sín í haftamálum í gær, en samkvæmt þeim verða höft á fjármagnsflutninga einstaklinga og fyrirtækja losuð að verulegu leyti í tveimur skrefum á komandi mánuðum.

Frá og með ársbyrjun 2017 verður einstaklingum og fyrirtækjum heimilt að fjárfesta allt að 100 milljónum króna á ári í erlendum verðbréfum og öðrum fjármálagerningum, eða færa innstæður milli gjaldmiðla innan sömu fjárhæðarmarka. Beinar fjárfestingar erlendis verða nánast ótakmarkaðar og óþægindi á borð við framvísun farmiða til að kaupa ferðagjaldeyri og sérstakar undanþágubeiðnir til fasteignakaupa erlendis heyra væntanlega sögunni til.

Hagfelldar aðstæður

Greiningardeildin segir að áformin feli í sér „öllu myndarlegri heimildir“ en hún hafði búist við. Skrefið sé afar jákvætt og löngu tímabært, enda séu aðstæður í efnahagslífinu og fjármálakerfinu eins hagfelldar og hægt er að vonast til.

Greiningardeildin bendir á að fyrirhuguð losun hafta muni væntanlega hafa talsverð áhrif á gjaldeyrismarkað á komandi mánuðum. Næstu vikur séu þó áhrifin bundin við þá sem þegar hafa heimildir til gjaldeyrisviðskipta, s.s. lífeyrissjóði og inn- og útflytjendur vöru og þjónustu. Þeir gætu séð sér hag í því að draga tímabundið úr gjaldeyrissölu eða auka við gjaldeyriskaup vegna breyttra væntinga um skammtímaþróun gengis krónu, en greiningardeildin telur líklegt að áhrif þessa verði ekki veruleg.

Bein erlend fjárfesting innlendra aðila verður ótakmörkuð, en þó háð …
Bein erlend fjárfesting innlendra aðila verður ótakmörkuð, en þó háð staðfestingu Seðlabankans. mbl.is/Kristinn

Við gildistöku laganna fá einstaklingar og fyrirtæki heimild til að kaupa verðbréf fyrir allt að 30 milljónir króna. Um næstu áramót hækka heimildirnar í 100 milljónir á kennitölu og þá verður einnig heimilt að færa innstæður milli gjaldmiðla innan sömu hámarksfjárhæðar.

Tvær sviðsmyndir

„Seðlabankinn gerði sviðsmyndagreiningu á mögulegu útflæði vegna nýju heimildanna. Tvær sviðsmyndir voru birtar á kynningarfundi um málið: Annars vegar mynd sem bankinn telur líklega og hins vegar e.k. álagssviðsmynd um verulegt útflæði, sem væri umfram það sem reynsla annarra landa gefur til kynna að verði raunin.

Vægari sviðsmyndin, sem bankinn telur líklegri, hljóðar upp á samtals 110 ma. kr. útflæði.

  • 70 ma. kr. eftir gildistöku
  • 40 ma. kr. eftir næstu áramót 

Þyngri sviðsmyndin hljóðar upp á samtals 245 ma. kr. útflæði

  • 165 ma. kr. eftir gildistöku
  • 80 ma. kr. eftir næstu áramót

Fyrra skrefið er talið munu vega þyngra en það síðara vegna þess að verulegur hluti einstaklinga mun ekki nýta heimild umfram 30 m. kr. að mati Seðlabankans.

Líklegt að lífeyrissjóðir fái frekari heimildir

Við þetta útflæði bætast svo áframhaldandi heimildir lífeyrissjóða til erlendra fjárfestinga. Þær nema 40 mö. kr. frá júlíbyrjun fram til septemberloka, og líklegt er að sjóðirnir fái áfram rúmar heimildir í kjölfarið. Ekki er hins vegar ljóst hvernig verður með erlendar fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða, en þeim er enn óheimilt að fjárfesta í erlendum fjármálagerningum,“ segir í umfjöllun greiningardeildarinnar.

Einnig er bent á að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi talið á blaðamannafundinum í gær allar líkur á því að Seðlabankinn og fjármálakerfið þyldi útflæðið án verulegs álags á gjaldeyrisforða, lausafé eða gengi krónu, jafnvel þótt þyngri sviðsmynd Seðlabankans yrði að veruleika.

Greining Íslandsbanka telur ekki líklegt að krónan veikist umtalsvert í …
Greining Íslandsbanka telur ekki líklegt að krónan veikist umtalsvert í kjölfar aðgerðanna. mbl.is/Heiðar

Myndarlegur gjaldeyrisforði

Gjaldeyrisforði Seðlabankans er afar myndarlegur um þessar mundir, að sögn greiningardeildarinnar, eftir umsvifamikil gjaldeyriskaup hans undanfarin ár. Hreinn gjaldeyrisforði nam 3,5 milljörðum evra (478 ma. kr.) og heildarforðinn var 5,3 milljarðar evra (721 ma. kr.) brúttó í júlílok. Frá júníbyrjun til 12. ágúst hefur Seðlabankinn keypt 741 milljónir evra (andvirði tæplega 100 ma. kr.) á markaði. Gjaldeyriskaup Seðlabankans frá júníbyrjun eru því af svipaðri stærð og bankinn telur að líklegt útflæði vegna losunarinnar nú verði.


Á móti útflæði vegna haftalosunar vegur einnig að gjaldeyrisinnflæði vegna utanríkisviðskipta gæti numið um það bil tíu milljörðum króna á mánuði að meðaltali næsta hálfa árið eða svo. Við bætist innflæði innan fjármagnsjafnaðar (erlendar lántökur, bein fjárfesting erlendra aðila á Íslandi o.s.frv.), sem hefur verið talsvert og svo gæti einnig orðið enn um sinn.

„Forði Seðlabankans er nú talsvert yfir viðmiði AGS fyrir æskilegan gjaldeyrisforða. Miðað við mildari sviðsmynd bankans fer forðinn lægst í u.þ.b. 120% af viðmiðinu, en miðað við þyngri sviðsmyndina fer forðinn lægst í 80-90% af viðmiði AGS að mati bankans. Gjaldeyrisforðinn yrði, jafnvel miðað við þá sviðsmynd, umtalsverður og mun meiri en hann var fyrir fáeinum misserum síðan.

Dragi úr gjaldeyriskaupum

Við teljum líklegt að Seðlabankinn dragi verulega úr gjaldeyriskaupum eftir gildistöku laganna, enda hefur bankinn haft vaxandi áhyggjur af kostnaði þess að stækka hreinan forða jafn hratt og raunin hefur verið. Bankinn er einnig tilbúinn að selja gjaldeyri úr gjaldeyrisforðanum á markaði til að milda skammtímasveiflur í gengi krónu samkvæmt fyrri yfirlýsingum. Góð forðastaða gerir bankanum þetta auðveldara en ella.

Umtalsverð veiking krónu í kjölfar framangreindra skrefa til losunar hafta virðist því ólíkleg, þótt þau muni væntanlega leiða til þess að gjaldeyrismarkaður færist nær jafnvægi eftir samfellt tímabil mikils hreins gjaldeyrisinnflæðis frá vordögum 2015,“ segir greiningardeildin.

mbl.is