Lítið um að vera á gjaldeyrismarkaði

mbl.is/Ómar

Rólegt hefur verið um að lítast á gjaldeyrismarkaði í morgun og virðist sem svo að áform stjórnvalda um frekari losun hafta, sem kynnt voru eftir lokun markaða í gær, hafi ekki raskað ró fjárfesta.

Þannig hefur lítil hreyfing verið á gengi krónunnar gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims í viðskiptum það sem af er degi.

Sem dæmi hefur gengisvísitalan aðeins hækkað um 0,02% þegar þetta er skrifað. Hefur gengi krónunnar veikst um 0,11% gagnvart evrunni, 0,18% gagnvart Bandaríkjadal og 0,09% gagnvart breska pundinu. Krónan hefur hins vegar styrkst um 0,24% gagnvart japanska jeninu og enn fremur hefur hún styrkst gagnvart norsku og sænsku krónunni, svo fáein dæmi séu tekin.

Greinendur telja líklegt að aðgerðin, sem felur í sér rýmkun á höftunum á komandi vikum, muni ekki valda umtalsverðri veikingu krónunnar. Er til dæmis bent á að aðstæður erlendis, í lágvaxtaumhverfi, séu ekki eins hagfelldar og best verður á kosið. Jafnvel sé líklegt að áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi muni aukast enn frekar þegar búið er að losa um höftin. Gæti það leitt til enn frekara innflæðis fjármagns til landsins.

Úrvalsvísitalan lækkar

Ágætis velta hefur verið á hlutabréfamarkaði það sem af er degi. Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hefur lækkað um 0,55% og hafa hlutabréf í Símanum, HB Granda, Sjóvá, N1, Vodafone, Icelandair Group og Marel lækkað í verði. Hástökkvari dagsins er hins vegar fasteignafélagið Eik, en hlutabréf félagsins hafa hækkað um 2,01% í 455 milljóna króna viðskiptum í dag.

mbl.is