Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist vonast til þess að hægt verði að stíga skref til frekari losunar fjármagnshafta á fyrri hluta næsta árs. Ótímabært sé hins vegar að svara því á þessari stundu hvenær höftin verða afnumin að öllu leyti.
Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli ráðherrans í umræðum á Alþingi í dag.
Hann sagði það viðvarandi verkefni stjórnvalda að halda áfram að þroska og þróa „umgjörðina í kringum fjármagnshreyfingar. Við höfum á þessu ári kynnt lagabreytingar sem geta stutt betur við stjórntæki stjórnvalda í þeim tilgangi að viðhalda betur fjármálalegum stöðugleika í landinu, en því verki verður í sjálfu sér aldrei lokið,“ sagði hann.
Á næsta ári verði tímabært að fara að hugleiða hvenær við verðum í aðstöðu til þess að stíga skrefið til fulls. Eins þurfi þá að kanna hvernig eigi að taka á þeim hluta vandans sem enn er til staðar og tengist þeim aflandskrónueigendum sem ákváðu að taka ekki þótt í útboði Seðlabankans fyrr í sumar.
Bjarni sagði að um 10% af landsframleiðslu væri enn í því „mengi“. Þeir væru nú fastir á reikningum sem háðir væru sérstökum takmörkunum.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Samfylkingin styddi frumvarp fjármálaráðherra um losun fjármagnshafta, rétt eins og hún hefði stutt önnur mál í afnámsferlinu.
Hann velti því hins vegar upp hvort það hafi verið mistök að bíða með að takast á við aflandskrónuvandann. Hann rifjaði upp að gert hafi verið ráð fyrir að fyrsta verkefni stjórnvalda yrði að glíma við þann vanda, síðan kröfuhafa föllnu bankanna. Röðinni hefði hins vegar verið breytt.
Bjarni sagði að með lögunum sem samþykkt voru í vor og vörðuðu aðgerðir gegn aflandskrónueigendum hefði verið búið í haginn fyrir næstu aðgerðir. Lögin hefðu í sjálfu sér verið hlutlaus gagnvart því frumvarpi sem nú væri til umræðu.
Aflandskrónuvandinn myndi hins vegar hafa áhrif á næstu skref og ákvarðanir um fullt afnám hafta. „Þær ákvarðanir verða ekki teknar fyrr en áhrifin af krónunum sem eru inn á reikningum sem eru háðir sérstökum takmörkunum verða tekin inn í myndina,“ sagði Bjarni.
Meta þyrfti stöðuna hverju sinni.
„Við treystum okkur til þess að taka þetta skref núna, útlitið er bjart og við vonumst til að geta stigið frekari skref á næsta ári til þess að opna enn frekar fyrir frelsi í fjármagnsflutningum.“
„En hvenær það skref verður stigið að sameina á endanum aflandskrónumarkaðinn og álandskrónumarkaðinn er ekki orðið tímabært að svara,“ bætti hann við.