Ákvörðun Fitch „undraverð“

AFP

Mehmet Simsek, varaforsætisráðherra Tyrklands, segir að ákvörðun alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch um að halda lánshæfiseinunn landsins óbreyttri sé „undraverð“.

Ákvörðun fyrirtækisins kom mörgum fjárfestum á óvart en margir þeirra reiknuðu með því að lánshæfiseinkunn landsins yrði lækkuð vegna ástandsins í landinu í kjölfar valdaránstilraunarinnar misheppnuðu í síðasta mánuði.

Einkunnin stendur í BBB-. Matsfyrirtækið telur þó að horfurnar í landinu séu verri en áður.

„Í ljósi alls þess sem Tyrkland hefur gengið í gegnum að undanförnu er breytingin á horfunum ekki mjög óvænt. En það að einkunnin skuli standa í stað er undravert og gefur til kynna að grunnstoðir Tyrklands séu sterkar,“ sagði Simsek við blaðamenn í dag.

Hann bætti því við að hætta væri á því að hagvöxtur yrði minni í landinu á þriðja fjórðungi ársins vegna atburðanna í síðasta mánuði.

mbl.is