Bandarískir embættismenn til Tyrklands

AFP

Embættismenn í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna munu á næstu dögum ferðast til Ankara, höfuðborgar Tyrklands, og ræða þar við fulltrúa tyrkneskra stjórnvalda um áskanirnar gegn klerknum Fethullah Gulen.

Eins og kunnugt er saka tyrknesk stjórnvöld Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, um að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni misheppnuðu í landinu í síðasta mánuði.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur krafist þess að bandarísk stjórnvöld framselji Gulen til Tyrklands.

Hafa leiðtogar Tyrklands gefið í skyn að hafni bandarísk stjórnvöld þeirri kröfu, þá muni það hafa verulega skaðleg áhrif á tengsl ríkjanna tveggja, sem eru bæði aðilar að Atlantshafsbandalaginu.

Gulen, sem Erdogan fullyrðir að sé hryðjuverkamaður, hefur vísað öllum ásökunum gegn sér á bug.

Fréttaveita Bloomberg greindi frá því í gær að bandaríska dómsmálaráðuneytið hefði í hyggju að setja á stofn teymi sem myndi ferðast til Tyrklands og rannsaka betur ásakanir tyrkneskra stjórnvalda á hendur Gulen.

mbl.is