Taka börn úr dönskum einkaskólum

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AFP

Hundruð foreldra í Danmörku af tyrkneskum uppruna hafa tekið börn sín úr skólum sem eru sagðir tengjast hreyfingu klerksins Fethullah Gulen.

Dreift hefur verið lista á Facebook yfir fjórtán danska einkaskóla sem eru sagðir tengjast Gulen og eru foreldrar hvattir til þess að „bjarga börnum sínum frá skólum hryðjuverkasamtaka Gulens“.

Tyrknesk stjórnvöld saka Gulen, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum, um að hafa staðið að baki valdaránstilrauninni misheppnuðu í Tyrklandi í síðasta mánuði. Hann neitar sök.

Alls hefur nemendum skólanna fækkað um 366 í yfirstandandi sumarfríi, að því er fram kemur í umfjöllun dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 um málið.

Jorgen Skåstrup, skólastjóri Hillerød-grunnskólans, segir að 45 af 180 nemendum skólans séu á bak og burt.

Hann segir að foreldrar þori ekki að láta börnin sín ganga í skóla sem Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur lýst sem „hryðjuverkaskóla“.

Klerkurinn Fethullah Gulen.
Klerkurinn Fethullah Gulen. AFP

Sumir foreldrar sem hann hefur rætt við segjast hafa fengið hótanir frá fjölskyldumeðlimum í Tyrklandi. Þeir séu hræddir um að geta ekki ferðast aftur til heimalands síns eða að tyrknesk stjórnvöld leggi hald á eigur þeirra.

Hreyfing Gulens, Hizmet, hefur rekið skóla í tugum landa, meðal annars í Afríku, Kasakstan, Pakistan og Bandaríkjunum, með stuðningi auðugra kaupsýslumanna í Tyrklandi.

Skólarnir í Danmörku, sem um ræðir, hafa neitað því að tengjast Gulen með beinum hætti. Þó hafi kennarar þeirra orðið fyrir áhrifum af klerknum og hugmyndum hans.

Skåstrup segir að vissulega séu nokkrir kennarar af tyrkneskum uppruna í Danmörku sem hafi hrifist af hugmyndafræði Gulens. Ekki megi þó sjá merki þess í námskrá skólanna eða þeim gildum sem þeir starfa eftir.

Þúsundir stuðningsmanna Gulens hafa verið handteknir eða reknir úr starfi í kjölfar valdaránstilraunnar misheppnuðu. Tyrknesk stjórnvöld hafa enn fremur krafist þess að Gulen verði framseldur til Tyrklands og látinn þar svara til saka.

Frétt Guardian

mbl.is