Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hefur tilkynnt formlega að hann ætli að sækjast eftir tilnefningu Repúblikanaflokksins til embættis forseta landsins á næsta ári.
„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í forsetakosningunum árið 2017,“ skrifaði Sarkozy í formála nýrrar bókar sem kemur út á miðvikudaginn.
Sarkozy var forseti Frakklands á árunum 2007 til 2012. Hann greindi frá því í síðasta mánuði að hann hefði í hyggju að bjóða sig fram til embættisins á nýjan leik.
Frétt mbl.is: Sarkozy staðfestir framboð sitt
Hann setti einnig tengil á formála bókarinnar á Twitter-síðu sína:
„Næstu fimm ár verða uppfull af hættu en einnig af von,“ skrifaði Sarkozy.
Hann nefndi fimm stórar áskoranir sem Frakkar standa frammi fyrir, þar á meðal að vernda frönsk einkenni sín og að endurvekja keppnisanda sinn.
Í nóvember mun Repúblikanaflokkurinn ákveða hvern hann styður í framboð í næstu forsetakosningum.