Heyrnarlaus óvopnaður ökumaður var skotinn til bana af bandarískum lögreglumanni í Norður-Karólínu í síðustu viku en lögreglumaðurinn hafði reynt að stöðva hann fyrir hraðakstur.
Yfirvöld í ríkinu eru að rannsaka málið en Daniel Harris, 29 ára, notaði táknmál í samskiptum sínum við aðra. Lögreglumaðurinn elti bifreið Harris í 13 km á hraðbraut að heimili Harris í Charlotte.
Þegar Harris kom út úr bifreiðinni skammt frá heimili sínu tókust þeir á og endaði það með því að hleypt var af byssu, segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni. Ökumaðurinn lést á staðnum, segir ennfremur í tilkynningunni en engin vopn fundust á Harris.
Lögreglumaðurinn, Jermaine Saunders, hefur verið sendur í leyfi á meðan rannsókn stendur yfir en farið er yfir myndskeið úr lögreglubifreiðinni ofl.
Nágrannar Harris eru ævareiðir vegna málsins enda Harris heyrnarlaus og heyrði því ekki í sírenu lögreglubílsins. Fjölskylda Harris hefur sett hópfjármögnun fyrir útförinni af stað á netinu. Ef meira safnast en sem nemur útfararkostnaði á að setja á laggirnar sjóð í hans nafni. Sjóðurinn verður notaður til þess að mennta lögreglumenn í því hvernig þeir eigi að koma fram við heyrnarlausa og eiga í samskiptum við þá. Þegar hafa safnast tæpir 14 þúsund Bandaríkjadalir, 1,6 milljónir króna, í sjóðinn.