Krónunni ekki aftur fleytt að fullu

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Íslensku krónunni verður líklega aldrei aftur fleytt að fullu, að sögn Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra.  

Ein af helstu lexíum hrunsins var að tryggja að fjárfestar geti ekki hagnast á vaxtamunarviðskiptum með krónuna og segir ráðherrann í samtali við Bloomberg Business að það innflæði sem nú streymir til landsins „sé áskorun“.

Hann segir að áskorunin felist í því að finna gott jafnvægi fyrir krónuna á opnum markaði. „Þegar ég tala um stöðugleika, er ég að tala um að losa um fjármagnshöftin og á sama tíma halda lágum vöxtum, lágri verðbólgu, að atvinnuleysi verði í lágmarki og að Íslandi verði samkeppnishæft í heildina séð,“ segir Bjarni við Bloomberg.

Hann bætir við að sömu fjármagnshöft og hafa verið hér á landi síðan 2008 verði ekki lengur við lýði. „Ég hef samt ekki trú á því að við munum aftur hafa sömu frjálsu og fljótandi krónuna. Það væri ekki skynsamlegt.“

mbl.is