Karlmaður hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald þangað til dómur fellur í máli hans, en ekki síðar en 22. september. Maðurinn hefur ítrekað brotið nálgunarbann og brottvísun af heimili stjúpdætra sinna og móður þeirra, sem jafnframt er eiginkona mannsins. Þá er maðurinn grunaður um að hafa í áraraðir brotið gegn mæðgunum með ítrekuðum kynferðisbrotum, líkamlegu ofbeldi og hótunum.
Maðurinn var í mars dæmdur í nálgunarbann fyrir áreiti gegn mæðgunum og í júní var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna ítrekaðra brota á nálgunarbanninu. Síðan þá hefur maðurinn reynt að hafa samband við og áreita konurnar, en hann fékk meðal annars vinkonu sína til að bera handskrifuð bréf frá sér til kvennanna þriggja og setja daglega í póstkassa þeirra með undirskriftinni „X“.
Frétt mbl.is: Grunaður um kynferðisafbrot í áraraðir
Í úrskurði héraðsdóms sem birtur var á vef Hæstaréttar í dag kemur fram að maðurinn hafi þar að auki reynt að senda þrjú bréf til mæðranna úr fangelsi sem fangelsisyfirvöld hafi stoppað og komið áleiðis til lögreglu.
Héraðsdómur telur rétt að framlengja varðhald yfir manninum í ljósi þess að líklegt sé að hann muni áfram brjóta af sér gangi hann laus. Segir í úrskurðinum að hann hafi sýnt af sér„einbeittan brotavilja“ í málinu og að líklega muni hann „halda áfram brotum sínum gagnvart þeim mæðgum fari hann frjáls ferða sinna“.
Hæstiréttur staðfesti þennan úrskurð héraðsdóms og segir að manninum sé í „sextán liðum gefin að sök ýmis brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, þar á meðal í tveimur liðum nauðgun samkvæmt 1. mgr. 194. gr. laganna. Hefur aðalmeðferð málsins verið ákveðin 13. september 2016. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.“