Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra Reykjavíkur, verður formlega boðið að mæta á opinn fund á Akureyri um málefni Reykjavíkurflugvallar á fundi bæjarráðs Akureyrar á morgun.
Þetta kom fram í máli Gunnars Gíslasonar, bæjarfulltrúa á Akureyri, í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Þegar Dagur var í viðtali í þættinum 18. ágúst síðastliðinn sagðist hann hafa boðist til að mæta á slíkan fund en boðið hefði ekki verið þegið.
„Við erum að tala um sérlega stórt hagsmunamál fyrir landsbyggðina, ekki bara Akureyri,“ sagði Gunnar og bætti við að gríðarleg aukning hefði orðið í sjúkraflugi.
„Hvað gerist ef ekki er hægt að lenda á Reykjavíkurflugvelli eða á öllu suðvesturhorninu vegna þess að það er engin flugbraut til að lenda á með stórslasað fólk?“ sagði hann.
„Þetta er mjög alvarlegt mál ef menn ætla að fara að taka þennan flugvöll út sem er þarna við hlið þessa hátæknisjúkrahúss sem er að rísa núna og ætla þannig að stofna lífi og heilsu fólks í hættu þegar þannig stendur á af landsbyggðinni. Þetta er skerðing á lífsgæðum og skerðing á réttindum sem við getum ekki sætt okkur við.“