Brock Turner, sem dæmdur var í sex mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn meðvitundarlausri konu árið 2015, er laus úr fangelsi. Atvikið átti sér stað við Stanford-háskóla, þar sem Turner stundaði nám, en refsingin þótti alltof mild og vakti málið athygli víða um heim.
Turner afplánaði dóminn í fangelsi Santa Clara-sýslu í Kaliforníu. Í Kaliforníu afplána fangar venjulega helming refsingar sinnar áður en þeim er sleppt.
Frétt mbl.is: Brosti þegar að honum var komið
Ákæruvaldið hafði farið fram á sex ára fangelsi en dómarinn í málinu, Aron Persky, sagðist við dómsuppkvaðningu hafa áhyggjur af því hvaða áhrif fangelsisdvölin hefði á Turner. Niðurstaða dómarans vakti mikla reiði og hann hefur síðan beðist undan því að dæma í sakamálum.
Dan, faðir Turner, vakti einnig mikla hneykslan þegar hann sagði að sonur sinn ætti ekki að þurfa að sæta fangelsisvist vegna „20 mínútna gjörnings“.
Turner verður skráður kynferðisbrotamaður fyrir lífstíð.