Meinað að fara úr landi

Can Dundar fyrrverandi ritstjóri.
Can Dundar fyrrverandi ritstjóri. AFP

Eiginkona fyrrverandi ritstjóra helsta stjórnarandstöðublaðsins í Tyrklandi, Cumhuriyet, var stöðvuð á flugvellinum í Istanbúl í morgun og henni meinað að fara úr landi. Var vegabréfið tekið af henni að sögn eiginmanns hennar, Can Dundar, á Twitter. 

Það eru tæpar þrjár vikur síðan Dundar sté úr stóli ritstjóra blaðsins en í maí var hann dæmdur í fimm ára og tíu mánaða fangelsi fyrir að hafa ætlað sér að birta ríkisleyndarmál í frétt tengdri forseta landsins. 

Dundar er harðorður á Twitter í garð yfirvalda í Tyrklandi sem hann segir að haldi konu hans í gíslingu. Frumskógarlögmálið gildi í landinu en þau muni ekki gefst upp. „Hvorki ég né konan sem stökk fram fyrir byssu láta þetta skelfa sig,“ segir Dundar og vísar þar til þess að kona hans glímdi við vopnaðan mann sem ætlaði að skjóta Dundar fyrir utan dómshúsið í Istanbúl. 

Fréttin sem Dundar var dæmdur fyrir var birt í Cumhuriyet í maí í fyrra en í henni var fjallað um vopnasendingu sem var stöðvuð á landamærum Sýrlands í janúar 2014. Eftir að fréttin birtist hótaði Erdogan forseti Dundar í eigin persónu og sagði að hann myndi gjalda þess dýru verði að hafa birt fréttina.

mbl.is