Sjávarútvegurinn í brennidepli

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var meðal þeirra ráðherra sem …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, var meðal þeirra ráðherra sem svöruðu óundirbúnum fyrirspurnum á þingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjávarútvegsfyrirtæki landsins, hagnaður og veiðigjöld, voru til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar ekki hafa verið neitt „nema kápan“, spurður að því hvernig núverandi ríkisstjórn hygðist fjármagna rannsóknir, þróun og uppbyggingu innviða, þar sem veiðigjöldin hefðu verið lækkuð.

Það var Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem spurði ráðherra en hóf mál sitt á því að rekja hvernig veiðigjöldin hefðu lækkað úr 13 milljörðum í 5,3 milljarða, á meðan arðgreiðslur í sjávarútvegi hefðu hækkað úr 5,3 milljörðum í 13,5 milljarða.

Hún sagði fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar hafa verið að afnema fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar, sem hefði m.a. miðað að því að fjármagna rannsóknir, þróun og uppbyggingu innviða með veiðigjaldinu. Spurði hún ráðherra hvort hann sæi fyrir sér óbreytt ástand og hvernig núverandi ríkisstjórn hygðist fjármagna þessa kostaðarliði ef ekki með veiðigjöldum.

Gunnar Bragi sagði þá, og ítrekaði síðar, að fyrrnefnd fjárfestingaráætlun hefði verið orðin tóm og sagði fráleitt að ætla veiðigjaldinu að fjármagna alla innviði samfélagsins. Hann sagði að aldrei mætti haga málum þannig að drægi úr fjárfestingu en sagði sjálfsagt að veiðigjaldið væri nýtt í rannsóknir og þróun.

Ekki sama, bónusar og arðgreiðslur

Sjávarútvegsfyrirtækin komu einnig við sögu í fyrirspurn Bjartar Ólafsdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, en hún spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að því hvort honum þætti háar arðgreiðslur t.d. sjávarútvegsfyrirtækja ekki lykta af sjálftöku líkt og margumræddar bónusgreiðslur hjá eignarhaldfélögum gömlu bankanna.

Björt sagði arðgreiðslur margfaldar þær upphæðir sem um væri rætt í tengslum við bónusgreiðslurnar, en á meðan bónusarnir væru skattlagðir 50% næmi fjármagnstekjuskatturinn á arðgreiðslurnar aðeins 20%.

Ráðherra sagðist ekki sammála því að hægt væri að leggja þetta tvennt að jöfnu; hann hefði rætt um sjálftöku í sambandi við bónusgreiðslurnar m.a. vegna þess hvernig fyrirtækin hefðu orðið til. Sagði hann arðgreiðslurnar í raun skattlagðar tvisvar, að ákveðnar reglur giltu um arðgreiðslur og að hann gæti ekki fallist á að það væri sjálftaka að greiða sér arð í atvinnustarfsemi.

Björt og Bjarni virtust sammála um það að fyrirtæki ættu að nota hluta hagnaðar síns til að fjárfesta í rekstrinum, og sagði Bjarni það hafa verið raunina hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum. Nefndi hann Samherja sérstaklega í þessu sambandi.

mbl.is