Vonir Hollande um endurkjör dvína

Francois Hollande er síður en svo vinsæll heima fyrir.
Francois Hollande er síður en svo vinsæll heima fyrir. AFP

Francois Hollande þarf að íhuga hvað hann tekur sér næst fyrir hendur ef marka má nýja skoðanakönnun en hún bendir til þess að Hollande dytti út í fyrstu umferð forsetakosninganna á næsta ári ef hann sæktist eftir endurkjöri.

Hollande er þess vafasama heiðurs aðnjótandi að vera síst dáði forseti Frakklands en samkvæmt könnun Le Figaro og sjónvarpsstöðvarinnar LCI fengi hann 11-15% atkvæða.

Könnunin bendir til þess að slagurinn stæði milli Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, og annaðhvort Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseta, eða Alain Juppé, fyrrverandi forsætisráðherra.

Nicolas Sarkozy vill komast aftur á forsetastól en þarf fyrst …
Nicolas Sarkozy vill komast aftur á forsetastól en þarf fyrst að bera sigurorð af Alain Juppé, fyrrverandi forsætisráðherra. AFP

Hollande er ekki síst óvinsæll vegna efnahagsástandsins í landinu en hann hefur ekki gefið upp hvort hann hyggst sækjast eftir endurkjöri. Í bók sem kom út í síðasta mánuði, var haft eftir Hollande að hann langaði til að bjóða sig fram á ný en myndi ekki gera það ef engin von væri um sigur.

Samkvæmt frönskum lögum fer önnur umferð forsetakosninga fram ef enginn hlýtur meirihluta atkvæða í fyrstu umferð.

Allt stefnir í forval hjá franska Repúblikanaflokknum, en þar mun slagurinn líklega standa milli Sarkozy og Juppe.

Það er vel mögulegt að Marine Le Pen, leiðtogi hinnar …
Það er vel mögulegt að Marine Le Pen, leiðtogi hinnar umdeildu Þjóðfylkingar, verði næsti forseti Frakklands. AFP

Fyrrnefnd könnun bendir til þess að ef Juppe verði forsetaefni hægrimanna, muni hann hljóta 33% atkvæða og Le Pen 29% atkvæða í fyrstu umferð. Ef valið stæði á milli Sarkozy og Le Pen, myndi Sarkozy fá 27% atkvæða og Le Pen 29%.

Emmanuel Macron, sem sagði af sér sem efnahagsráðherra á dögunum, fengi 15-20% atkvæða ef hann færi fram, sem þykir líklegt.

Fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi fer fram 23. apríl nk. og síðari 7. maí.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is