Íhlutun ríkisins brot á alþjóðasamningum

Bakki við Húsavík.
Bakki við Húsavík. Ljósmynd/Gaukur Hjartarson

Landvernd undrast fréttir af mögulegum pólitískum afskiptum ríkistjórnarinnar af máli um rafmagnslínur sem leggja átti frá Kröflu að iðnaðarsvæðinu að Bakka. Er málið nú rekið fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem stöðvaði framkvæmdir meðan fjallað er um málið.

Í tilkynningu frá Landvernd segir að ríkisstjórnin geti ekki haft áhrif á ákvarðanir óháðra úrskurðanefnda eða dómstóla og að Alþingi geti ekki breytt lögum afturvirkt, eins og hugmyndir hafi komið upp um. „Öll slík íhlutun væri einnig brot á alþjóðasamningum og rétti almennings til endurskoðunar ákvarðana um umhverfismál,“ segir í tilkynningunni.

Þá er bent á að með fullgildingu Íslands á Árósasamningnum fyrir fimm árum skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til þess að tryggja að óháður úrskurðaraðili eða dómstóll endurskoði leyfi til framkvæmda. Sú endurskoðun er á valdsviði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem stefnir að því að úrskurða í málunum er varða línurnar til Bakka í næsta mánuði.

Tekur Landvernd fram að á síðustu 14 árum hafi margítrekað verið gerðar athugasemdir við umhverfismat og skipulag vegna framkvæmda á Þeistareykjum, við Kröflu og háspennulínur að Bakka. Fyrir hálfu öðru ári fóru samtökin formlega fram á að fleiri valkostir yrðu skoðaðir með nýju umhverfismati raflína frá Kröflu að Bakka. Forsendur höfðu þá gjörbreyst frá umhverfismati 2010 vegna minni raforkuþarfar á Bakka og tækniframfara í lagningu jarðstrengja.

Landvernd hafi svo kært málið þegar sveitarfélögin hafi gefið leyfi fyrir framkvæmdunum í vor og sumar. Segja samtökin að Landsnet þurfi að svara fyrir það hversu seint var sótt um framkvæmdaleyfi, en það hafi ekki verið fyrr en í mars á þessu ári, eftir að Landsnet hafi boðið út framkvæmdirnar.

„Miðað við alvarleika málsins og forsögu mátti Landsnet búast við kæru frá umhverfisverndarsamtökum og/eða landeigendum. Landsnet hefur haft miklu meira en nægan tíma til að skoða aðra valkosti í línulögnum,“ segir í tilkynningunni.

Segir Landvernd að lokum að sé vilji til að leysa úr málinu áður en niðurstaða úrskurðarnefndar liggi fyrir þurfi Landsnet að koma fram með tillögur að línulögnum og leiðum sem hlífa hraununum sem málið snýst um. „Þrátt fyrir það láta tillögur frá fyrirtækinu enn á sér standa, tveimur og hálfum mánuði eftir að fyrsti úrskurðurinn um stöðvun framkvæmda var kveðinn upp í þessum málum,“ segir í tilkynningu Landverndar.

mbl.is