Tyrknesk yfirvöld hafa óskað eftir því við bandarísk yfirvöld að þau handtaki Fethullah Gülen klerk sem dvelur í Bandaríkjunum. Ástæðan sé sú að hann hafi fyrirskipað valdaránið sem misheppnaðist 15. júlí.
Tyrkneska dómsmálaráðuneytið fór fram á handtökuna en þetta er í fyrsta skipti sem formlega er farið fram á að bandarísk yfirvöld handtaki Gülen en hann býr í sjálfskipaðri útlegð í Pennsylvaníu.
Yfirvöld í Ankara hafa nokkrum sinnum beðið bandarísk yfirvöld um að framselja klerkinn og sent til Bandaríkjanna gögn sem þau segja sýna að hann hafi átt aðild að valdaránstilrauninni. Snemma í síðasta mánuði var gefin út formleg handtökuskipun á hendur Gülen en hann neitar að hafa komið að valdaráninu.
Þegar Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti Ankara nokkrum vikum síðar sagðist hann skilja tilfinningar Tyrkja í garð Gülen og að bandarísk yfirvöld ætluðu sér alls ekki að vernda neinn sem hafi ætlað sér að skaða bandamenn þeirra. En að sögn Bidens er nauðsynlegt að fara að lögum þegar fólk er handtekið líkt og tyrknesk yfirvöld fóru fram á.