Það hefur líkast til ekki farið fram hjá neinum að stjörnuhjónin Angelina Jolie og Brad Pitt eru að skilja eftir 12 ára samband.
Jolie sótti um skilnað frá Pitt í gær, og segir hún ástæðuna vera ósættanlegan ágreining. Leikkonan fer fram á forræði yfir börnum þeirra sex, en hún hefur verið sögð ósátt við uppeldisaðferðir eiginmannsins.
Frétt mbl.is: Jolie sækir um skilnað frá Pitt
Samkvæmt frétt Daily Mail eru uppeldisaðferðir leikarans þó ekki megin ástæða skilnaðarins, en ónefndir heimildamenn halda því fram Jolie hafi fengið sig fullsadda af áfengis- og kannabisneyslu leikarans, sem og reiðistjórnunarvanda hans.
Þá heldur Radar Online því fram að Pitt hafi átt í ástarsambandi við leikkonuna Marion Cotillard, en þau leika á móti hvort öðru í kvikmyndinni Allied.
„Hún réð einkaspæjara því hana grunaði að Brad væri að gamna sér með Marion, og sú reyndist raunin. Það var dropinn sem fyllti mælinn,“ er haft eftir ónefndum heimildamanni vefmiðilsins.
Skötuhjúin hafa ekki sést saman opinberlega svo mánuðum skiptir, en þau voru síðast mynduð saman í nóvember á síðasta ári þegar þau voru að kynna nýjustu mynd sína.
Þetta er þriðji skilnaður Jolie, sem áður var gift Johnny Lee Miller og Billy Bob Thornton. Pitt var hinsvegar giftur Jennifer Aniston, en hann skildi við hana eftir að hafa kynnst Jolie við tökur á kvikmyndinni Mr. & Mrs. Smith.