Húðflúraður uppreisnarseggur, drottning rauða dregilsins, mannúðarsendiherra og baráttukona gegn krabbameini; Angelina Jolie er Hollywood-stjarna með hugsjónir og þekkt fyrir að taka erfiðar ákvarðanir.
Eftir áratug í sviðsljósinu sem annar helmingur „Brangelina“-fyrirbærisins hefur hin 41 Jolie sótt um skilnað frá eiginmanni sínum, Brad Pitt. Skilnaðurinn markar enn ein tímamótin í lífi hinnar þrígiftu, sex barna móður, sem hefur á lífsleiðinni baðað sig í frægðarljóma Hollywood, heimsótt flóttamannabúðir í Afríku og verið fyrirmynd hvað varðar heilbrigðismál kvenna.
Jolie skaust á stjörnuhimininn þegar hún lék í Girl, Interrupted og hreppti Óskarsverðlaunin fyrir besta leik í aukahlutverki fyrir túlkun sína á hinni geðveiku Lisu. Í kjölfarið birtist hún í fjölbreyttum hlutverkum; sem kynþokkafull tölvuleikjahetja í kvikmyndunum um Löru Croft, sem ekkja blaðamannsins Daniel Pearl í A Mighty Heart og sem ævintýraillmenni í Maleficent.
Þegar Jolie komst fyrst í sviðsljósið var hún ófeimin við að opna sig um óhefðbundið líf sitt. Hún kom út úr skápnum sem tvíkynhneigð, gekk með blóð úr öðrum eiginmanni sínum, Billy Bob Thornton, um hálsinn og olli fjaðrafok vegna náins sambands síns við bróður sinn, svo eitthvað sé nefnt.
Samband hennar við Pitt komst í fjölmiðla eftir að þau sáust láta vel hvort að öðru við tökur á Mr. & Mrs. Smith árið 2004 en ári síðar tilkynnti Pitt um skilnað sinn frá Jennifer Aniston og „Brangelina“ varð til.
Stórstjörnurnar gegnu í hjónaband í Frakklandi í ágúst 2014 eftir nokkurra ára sambúð og eiga sex börn saman, þar af þrjú sem voru ættleidd.
Í dag eru það mannúðarstörf Jolie sem vekja athygli frekar en ögrandi ummæli hennar. Hún hefur verið sendiherra Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum í fjölda ára og 2012 var hún skipaður sérstakur sendifulltrúi. Hefur hún heimsótt flóttamannabúðir víða um heim, m.a. í Sýrlandi, Austur-Kongó og Rúanda.
Elísabet Englandsdrottning gerði Jolie að „honorary dame“ árið 2014 og hún hefur verið ötull talsmaður fórnarlamba kynferðisofbeldis í stríði og stýrði alþjóðlegri ráðstefnu um nauðganir í átökum í Lundúnum.
Þá er Jolie einn þekktasti talsmaður baráttunnar gegn krabbameini en hún gekkst undir brjóst- og legnám eftir að hún greindist með arfgeng gen sem auka líkurnar á illvígu krabbameini. Móðir hennar, amma og frænka létust allar úr sjúkdómnum.
Jolie talaði mjög opinskátt um ákvörðun sína og aðgerðirnar sem hún gekkst undir. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um kosti og galla fyrirbyggjandi aðgerða á borð við brjósta- og legnám.
Leikkonana sagðist hafa ákveðið að stíga fram til að aðrar konur gætu lært af sögu sinni en það var vegna barna hennar og Pitt sem hún ákvað að gangast undir aðgerðirnar.
„Ég get sagt börnunum mínum að þau þurfa ekki að óttast að þau muni missa mig vegna brjóstakrabbameins,“ skrifaði Jolie í Times eftir að hún gekkst undir brjóstnámið 2013. „Þau vita að ég elska þau og að ég mun gera allt sem ég get til að vera með þeim.“
Faðir Jolie er Jon Voight, einn dáðasti leikari sinnar kynslóðar, sem varð frægur fyrir myndir á borð við Midnight Cowboy, Deliverance og Coming Home, sem hann vann Óskarsverðlaun fyrir.
Móðir Jolie lék í bandarískum sjónvarpsþáttum en gaf leikferil sinn upp á bátinn til að sjá um börnin sín tvö.
Sjálf hefur Jolie einnig látið til sín taka bakvið myndavélina en hún leikstýrði m.a. myndinni In the Land of Blood and Honey árið 2011, þar sem viðfangsefnið eru nauðganir sem vopn í stríðsátökunum í Bosníu.
Jolie á að baki tvö hjónabönd en hún var áður gift Thornton og leikaranum Johnny Lee Miller.