Á sama hátt og eyjaskeggjar í Kyrrahafi hafa orðið pólitískir málsvarar gegn hækkun yfirborðs sjávar gætu Íslendingar öðlast áhrif á alþjóðavísu sem forvígismenn gegn hlýnun og súrnun sjávar, að mati sérfræðings Alþjóðanáttúruverndarsambandsins. Ísland sé í „framljósum valtarans“ þegar kemur að breytingum á höfunum.
Höf jarðar hafa tekið til sín um 93% af þeirri hnattrænu hlýnun sem hefur átt sér stað á jörðinni vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum frá 8. áratug síðustu aldar samkvæmt loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC). Þar við bætist að höfin hafa tekið upp um fjórðung koltvísýringsins sem menn hafa dælt út í lofthjúpinn og hafa súrnað að sama skapi. Hvoru tveggja getur haft alvarleg áhrif á viðkvæmt vistkerfi sjávar.
Dan Laffoley er sérfræðingur í vistkerfum hafsins hjá Alþjóðanáttúruverndarsambandinu (IUCN) og einn höfunda umfangsmestu skýrslu um áhrif hnattrænnar hlýnunar á höf jarðar sem sambandið birti nýlega. Hann hélt erindi á fundi Náttúruverndarsamtaka Íslands um verndun hafsins í gær og afhenti Guðna Th. Jóhannessyni forseta eintak af skýrslunni.
Frétt mbl.is: „Erum að sýkja heimshöfin“
Til að setja hlýnun sjávar í samhengi nefndi Laffoley að útreikningar sýndu að ef sambærileg varmaorka hefði verið sett í neðstu tíu kílómetra lofthjúps jarðar og hefur verið gert við efstu tvo kílómetra hafsins frá 8. áratuginum þá hefði það valdið hlýnun um 36°C.
Athafnamaðurinn Elon Musk lýsti eitt sinn bruna manna á jarðefnaeldsneyti sem „heimskulegustu tilraun sögunnar“. Laffoley greip einnig til samlíkingar við tilraun í erindi sínu. Tilraun sem menn hafi gert sjálfa sig að tilraunadýri í án þess að gera sér grein fyrir að tilraunin væri í gangi.
„Vandinn er að þetta eru breytingar sem er búið að festa í sessi. Við erum ekki lengur skeytingarlausir áhorfendur heldur höfum við óafvitandi sett okkur sjálf í þessa tilraun sem við erum nú að fá niðurstöðurnar úr,“ segir Laffoley í viðtali við Mbl.is.
Hann vísar til þess að töf sé á því að afleiðingar losunar gróðurhúsalofttegunda komi fram. Þó að menn skæru losunina niður í núll nú þegar þá tæki það fram til 2030-2050 fyrir afleiðingarnar að koma fram. Nái hlýnunin niður í hafdjúpin gæti það tekið áratugi eða jafnvel aldir að vinda ofan af henni.
Laffoley segir að breytingarnar sem eru að verða á hafinu nái ekki bara til kóralrifja eða nokkurra fiskistofna sem færi sig um set heldur hafi þær áhrif á allt vistkerfi hafsins.
„Sama hvert er litið eiga breytingar sér stað og við erum virkilega illa undir þær búnar,“ segir hann.
Í erindi sínu á fundinum í gær ræddi Laffoley um að sótt væri að hafinu úr mörgum áttum á sama tíma. Auk hlýnunar og súrnunar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda ætti mengun og ofveiði sér einnig stað.
„Þegar þú leggur súrnun sjávar ofan á hlýnun færðu út verri niðurstöðu. Við völdum núna kokteili áhrifa. Raunveruleikinn er að það er óráðlegt að fara niður þessa braut. Ef maður ætlar að standa í tilrauninni þá ætti maður að minnsta kosti að fjárfesta í rannsókninni til að vita niðurstöðurnar. Við erum ekki að því,“ segir hann við Mbl.is.
Menn hafi verið of lengi að bregðast við vandanum. Vitað hafi verið um hnattræna hlýnun í meira en öld og varað hafi verið við hlýnun hafsins frá því á 6. áratug síðustu aldar. Það hafi ekki verið fyrr en í loftslagssamningnum sem ríki heims samþykktu í París í fyrra sem hafið fékk veigameiri sess í loftslagsumræðunni.
Lagði Laffoley áherslu á að þjóðir heims dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda strax og skiptist á þekkingu um áhrif breytinganna á jörðinni.
Ísland er á óþægilegum hluta jarðarinnar þegar kemur að loftslagsbreytingum, að sögn Laffoley. Breytingarnar magnist við póla jarðar og í nágrenni Íslands eigi stærstu breytingarnar á hita- og sýrustigi sjávar sér stað.
Laffoley segist telja Ísland viðkvæmt fyrir breytingunum en hann geti þó ekki sagt hversu viðkvæmt því Íslendingar þurfi sjálfir að ráðast í að greina stöðuna hér. Hann telur Íslendinga þó hafa mikla möguleika í stöðunni.
„Þið sitjið beint í framljósum valtarans ef svo má segja. Að því sögðu þá held ég að það sé margt sem hægt er að gera,“ segir hann.
„Á sama hátt og eyjaskeggjar í Kyrrahafi hafa orðið pólitískar raddir og málsvarar vegna hækkunar yfirborðs sjávar geta Íslendingar öðlast mikil áhrif og athygli fyrir að vera pólitískir málsvarar vegna hlýnunar og súrnunar sjávar. Það myndi gefa því nýjan kraft hversu vítt og breitt rödd Íslands heyrist,“ segir Laffoley.