Það hefur líkast til ekki farið fram hjá mörgum að stjörnuhjónin Brad Pitt og Angelina Jolie eru að skilja. Jolie sótti um skilnað í fyrradag, og sagði ástæðuna vera ósættanlegan ágreining.
Heimurinn fór á hliðina við tíðindin, enda hafa skötuhjúin verið saman í 12 ár, auk þess sem þau eiga sex börn saman.
Ýmsar kenningar hafa verið uppi varðandi ástæður skilnaðarins. Þá hefur því verið haldið fram að áfengis- og kannabisneysla Pitts, sem og reiðistjórnunarvandi hans, sé meginorsök sambandsslitanna. Mótleikkona Pitts, Marion Cotillard, var einnig dregin inn í málið og greint frá því að þau hefðu átt í ástarsambandi á meðan tökum á þeirra nýjustu mynd stóð.
Cotillard er þó sögð vera miður sín vegna ásakananna, en hún á í sambandi við franska leikarann og leikstjórann Guillaume Canet.
„Marion og Guillaume eru mjög hamingjusöm, en þessar sögusagnir eru ekki eitthvað sem Marion vill heyra. Þetta mun gera hana algerlega niðurbrotna,“ sagði ónefndur heimildarmaður dagblaðsins Daily Mail.
„Hún nýtur þess að eyða tíma með fjölskyldunni sinni og langar að gera meira af því,“ bætti heimildamaðurinn við, en leikkonan gaf það nýverið út að hún vildi fara að lifa einfaldara lífi fjarri sviðsljósinu.