Lífið hefur ekki leikið við hinn unga kóalabjörn, Shayne, en hann missti móður sína eftir að ekið var á hana. Mikil mildi þykir að Shayne hafi sloppið óskaddaður frá slysinu, en hann hélt sér í bak móður sinnar þegar óhappið varð.
Björninn litli var fluttur á dýraspítala, þar sem starfsfólk hlúir að honum, en þó að hann hafi ekki hlotið nein líkamleg meiðsl saknar hann móður sinnar.
„Hann er að eiga við móðurmissinn, auk þess sem hann er að læra á lífið svo hann geti spjarað sig úti í náttúrunni. Það er mikil mildi að Shayne var bjargað, því hann hefði ekki lifað einn dag í náttúrunni á hans aldri,“ sagði Rosie Booth, forstjóri Australia Zoo Wildlife dýraspítalans, í fréttatilkynningu.
Shayne er undir stöðugu eftirliti starfsfólks dýraspítalans sem sinnir öllum hans líkamlegu þörfum. Starfsfólkið hugar þó einnig að félagslegum þörfum litla bjarnarins, og brugðu á það ráð að útvega honum tuskudýr til að kúra með, en dýrið er í líki kóalabjarnar.
Frétt The Dodo