„Skiptum bara í fjöru!“

Kjaradeila sjómanna og útgerðarmanna er í hnút.
Kjaradeila sjómanna og útgerðarmanna er í hnút. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

„Útgerðirnar hafa hafnað öllum sáttaboðum, sem er mjög sérkennilegt. Ég veit ekki að hverju þeir eru að róa, hvort þeir trúi því hreinlega ekki að sjómenn muni boða vinnustöðvun eða hvort þeir hafa eitthvað uppi í erminni. Við bara vitum það ekki,“ segir Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands. „Ég held þeir tali ekkert við okkur, ekki af viti alla vega, fyrr en þeir sjá framan í það að karlarnir eru klárir í slaginn.“

Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun sjómanna hófst 20. september og stendur til 17. október. Kjósi sjómenn að fara í verkfall mun það hefjast 10. nóvember kl. 23. Um 800 sjómenn eru félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands.

Öllum kröfum sjómanna á fiskiskipum hafnað

„Staðan hjá fiskimönnum er sú að það er ekki verið að ræða saman af neinu viti. Á síðasta fundi milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, var öllum kröfum fiskimanna einfaldlega hafnað,“ segir Bergur Þorkelsson, stjórnarmaður félagsins og gjaldkeri.

SFS var boðinn samningur sem fól í sér tvær breytingar frá núverandi fyrirkomulagi. Önnur breytingin fól í sér afnám á nýsmíðaálagi, sem tryggir útgerðum 10% afslátt af launum sjómanna í 7 ár eftir að nýtt skip er tekið í notkun, og hin að útgerðir myndu greiða sjómönnum á fiskiskipum orlofs- og desemberuppbót utan skipta. Þeir benda á að allir launþegar á markaðnum, þar með taldir sjómenn sem vinna á tímakaupi, eigi rétt á orlofs- og desemberuppbót – nema sjómenn á fiskiskipum.

Því tilboði hafi útgerðarmenn umsvifalaust hafnað og þá sé ekki mikið eftir til að vinna með. „Þeir komu með gagntilboð upp á 10.000 króna aukahækkun á kauptryggingu fiskimanna,“ segir Bergur og bætir við að slíkt sé bara of lítið til að skipta nokkru máli.

Grimmilegar kröfur útgerðarmanna

Jónas og Bergur segjast enga tilfinningu hafa fyrir því hver líkleg niðurstaða kosningarinnar gæti orðið. „Það er of snemmt að segja til um það,“ segir Jónas. „Menn kjósa bara um það hvort þeir vilji leggja niður störf þennan tiltekna dag, og ef þeir segja nei þá bara helst ástandið óbreytt. Þeir eru búnir að hafna okkar kröfum og þar við situr.“

Sjómenn á nýjum skipum greiða hluta launa sinna í sérstakt …
Sjómenn á nýjum skipum greiða hluta launa sinna í sérstakt nýsmíðaálag til útgerðar sinnar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á sínum tíma hafi kjaradeila útgerðarmanna og sjómanna farið til Ríkissáttasemjara vegna þess að útgerðarmenn hafi vísað henni þangað. „Þeir voru með grimmilegar kröfur á sjómenn á lækkun launa, veikingu á slysarétti og fleira og fleira. Þeir fóru svo í atkvæðagreiðslu með það fyrir augum að setja á okkur verkbann til að knýja það fram. En eitthvað hefur þeim láðst að skoða heimalandið sitt þar, því þetta var fellt í atkvæðagreiðslunni hjá þeim,“ segir Jónas.

Brostnar forsendur

„Þeir voru þarna búnir að vísa þessu til Ríkissáttasemjara en olíuverð og auðlindagjaldið var auðvitað allt annað þá en það er í dag. Hvort tveggja hefur lækkað stórlega síðan og útgjöld útgerðarmanna hafa þess vegna lækkað sem því nemur,“ bætir Bergur við. „Fyrrverandi ríkissáttasemjari sagði okkur það að réttast væri að vísa deilunni úr húsi. Auðlindagjaldið hefði lækkað og olíuverð sömuleiðis, og þar af leiðandi væru forsendur útgerðarmanna fyrir kröfum þeirra einfaldlega brostnar.“

Af hverju ekki skipt í fjöru?

Bergur segir að „þegar litið er til þess að undanfarin ár hefur þróunin verið sú að skattar hafa verið hækkaðir, sjómannaafslátturinn afnuminn og útgerðir skilað milljarði króna í hagnað hverja viku ársins, sé undarlegt að sjómenn fái sífellt minna í sinn hlut af heildaraflaverðmæti skipa sinna. „Við værum alveg til í óbreytta samninga frá 1830, sem felur í sér að afla verði skipt í fjöru og sjómenn fái þannig í sinn hlut fjórða hvern fisk. Það væri bara stórgott. En það taka þeir ekki í mál.“

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness tekur í sama streng og hvetur alla sína félagsmenn til að samþykkja verkfall til að knýja á um bætt kjör.

mbl.is