Hjónaskilnaður Angelinu Jolie og Brad Pitt setti heimsbyggðina á hliðina, en leikkonan sótti um skilnað frá eiginmanni sínum í fyrradag.
Margir hafa einnig beðið spenntir eftir viðbrögðum Jennifer Aniston, sem var gift Pitt þegar hann hóf samband sitt við Jolie.
Samkvæmt heimildum tímaritsins Us Weekly heldur Aniston ekki í neinar neikvæðar tilfinningar í garð fyrrverandi eiginmanns síns, þó hún telji að hann hafi hugsanlega fengið það sem hann átti skilið.
„Já, þetta er karma,“ á leikkonan að hafa sagt við vin sinn.
„Hún hafði það alltaf á tilfinningunni að eitthvað myndi koma upp á hjá þeim,“ bætti heimildamaðurinn við.
„Hún trúði því ekki að Angelina væri sú sem Brad myndi endast með. Henni hefur alltaf fundist Angelina vera of flókinn persónuleiki fyrir hann, hann er nokkuð einfaldur sjálfur.“
Aniston er í dag gift leikaranum Justin Theroux, en þau gengu í hjónaband haustið 2015.