Franska leikkonan Marion Cotillard hefur tjáð sig um orðróm um að hún hafi átt þátt í því að Hollywood-parið Brad Pitt og Angelina Jolie eru að skilja.
Hún skrifar á Instagram að hún hafi fyrir mörgum árum hitt mann lífs síns. „Hann er ástin mín, besti vinur minn og sá eini sem ég þarf á að halda,“ skrifar hún.
Cotillard greinir jafnframt frá því að hún og eiginmaður hennar, Guillaume Canet, eigi von á öðru barni.
Leikkonan blandaðist óvænt inn í fréttir fjölmiðla eftir að greint var frá því að Jolie hafi farið fram á skilnað frá Pitt.
„Þetta eru mín fyrstu og einu viðbrögð við stormsveipnum sem myndaðist vegna frétta fyrir sólarhring síðan og mér var sópað inn í,“ skrifar Cotillard.
Hún segist ekki vera vön því að tjá sig um slík mál né heldur tala um þau í alvöru en þetta er farið að hafa veruleg áhrif á fólk sem ég elska þannig að ég neyðist til þess.
Í gær sagði Pitt í viðtali við tímaritið People að hann væri afar sorgmæddur vegna þess að hjónabandi hans væri lokið og það sem skipti öllu sé hagur barnanna.