Lögreglan sögð rannsaka Brad Pitt

Brad Pitt er sagður sæta lögreglurannsókn.
Brad Pitt er sagður sæta lögreglurannsókn. AFP

Fregnir herma að lögreglan í Los Angeles sé að rannsaka leikarann Brad Pitt, en hann hefur verið ásakaður um illa meðferð á börnum sínum.

Samkvæmt frétt TMZ var fjölskyldan á ferðalagi í síðustu viku og er leikarinn sagður hafa orðið ofurölvi í einkaþotu þeirra hjóna, þar sem hann er sagður hafa veist að börnunum.

Þá heldur heimildamaður TMZ því fram að leikarinn hafi haldið uppteknum hætti eftir að vélin lenti, og hafi lögreglu því verið gert viðvart.

Samkvæmt frétt miðilsins hafa barnaverndaryfirvöld bæði yfirheyrt Jolie og Pitt vegna málsins, en því er einnig haldið fram að ræða eigi við börnin sex á næstu dögum.

Það hefur líkast til ekki farið fram hjá mörgum að Jolie sótti um skilnað frá Pitt á dögunum, en hún hefur einnig farið fram á að fá fullt forræði yfir börnum þeirra sex.

mbl.is