Það hefur líkast til ekki farið fram hjá mörgum að leikarahjónin Angelina Jolie og Brad Pitt eru að skilja, en leikkonan sótti um skilnað frá eiginmanni sínum fyrr í vikunni.
Tíðindin komu mörgum í opna skjöldu, en Jolie sagðist hafa tekið ákvörðunina með hag fjölskyldunnar að leiðarljósi. Þá hefur hún einnig farið fram á forræði yfir börnum þeirra sex.
Fregnir herma að leikarinn sæti rannsókn alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum (FBI), en hann er sakaður um að hafa veist að syni þeirra, Maddox, í síðustu viku. Þá hefur því einnig verið haldið fram að þetta sé ástæða skilnaðarins.
Í október í fyrra náðust myndir af hjónunum þar sem þau voru í fríi með börnum sínum í Legolandi í Windsor, en svo virðist vera sem þau hafi átt í talsverðum erjum.
„Ég heyrði ekki hvað þau voru að segja, og vissi ekki að þau voru að rífast. Það var ekki fyrr en við kíktum á myndirnar sem við sáum að þau höfðu verið í miðju rifrildi. Við sáum þau síðan aftur, en þau voru nokkuð alvarleg á svipinn þar sem þau gengu um garðinn,“ er haft eftir ljósmyndaranum.
Frétt Daily Mail