Sívaxandi þrýstingur er nú á þá sem rannsaka morð lögreglu á svörtum manni í borginni Charlotte í Norður-Karólínuríki, að birta myndbandsupptökur af því þegar lögregla skaut manninn.
Hundruð mótmælenda virtu útgöngubann að vettugi í borginni Charlotte í Norður-Karólínu í nótt og héldu mótmælum áfram eftir miðnætti. Útgöngubann verður áfram í gildi í borginni í nótt að sögn yfirvalda.
Frétt mbl.is: Mótmæltu þrátt fyrir útgöngubann
Gríðarleg reiði er meðal borgarbúa vegna dráps lögreglunnar á Keith Lamont Scott á þriðjudag, en lögreglumaðurinn sem skaut hann er einnig svartur.
Neyðarástandi var lýst yfir í borginni á miðvikudag og þjóðvarðlið sent þangað.
Scott var skotinn til bana við fjölbýlishús í borginni og bættist þar í stóran hóp svarta íbúa Bandaríkjanna sem eru skotnir til bana af lögreglu. Fjölskylda hans, líkt og margir aðrir borgarbúar, hafa hafnað þeirri fullyrðingu lögreglu að Scott hafi verið vopnaður.
Fjölskyldan hefur nú fengið að horfa á myndbandsupptökur af því þegar Scott var skotinn og hefur hvatt til þess að það verði gert opinbert. Lögregla hefur hins vegar hingað til neitað að birta myndbandsupptökurnar, sem koma úr myndavél á mælaborði lögreglubílsins, og segja slíka birtingu geta truflað hliðstæða rannsókn ríkisyfirvalda á atvikinu.
AFP-fréttastofan, segir viðbrögð lögregluyfirvalda í Charlotte vera í algjörri andstöðu við viðbrögð yfirvalda í Tulsa í Oklahoma við sambærilegu atviki þar í borg fyrir viku.
Búið er að gera myndband af því atviki aðgengilegt og þá er búið að ákæra lögreglumanninn í Tulsa fyrir manndráp af fyrstu gráðu.
Jennifer Roberts, borgarstjóri Charlotte, greindi frá því í dag að hún væri sammála því að birta eigi myndbandið, en ekki alveg strax.
„Ég vil láta birta það,“ sagði Roberts í viðtali við CNN. Hún tók hins vegar einnig undir með lögreglustjóra Charlotte, Kerr Putney, að það verði að gæta þess að trufla ekki rannsókn ríkisins á atvikinu.
Einn áhættuþátturinn er að hennar sögn sá að vitni að atvikinu breyti frásögn sinni eftir að hafa séð myndbandið. Hún segir borgaryfirvöld nú eiga í viðræðum við rannsakendur um málið. „Ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær myndbandið verður birt,“ sagði Roberts.
Bandaríska dagblaðið New York Times bættist í dag í hóp þeirra sem hvetja til þess að myndbandið verði birt, en í leiðara sínum hrósaði blaðið yfirvöldum í Tulsa og sagði viðbrögð yfirvalda í Norður-Karólínuríki röng.
„Það er enginn lagaleg ástæða fyrir því að halda myndbandinu frá almenningi. Þetta eru kvíðvænlegar aðstæður og besta leiðin til að draga úr tortryggni íbúa er algjört gagnsæi,“ sagði í leiðara New York Times.
Lögregla hefur fullyrt að Scott hafi verið vopnaður skammbyssu, en fjölskylda hans segir hann hafa verið með bók í hönd. Enginn byssa er heldur sýnileg á myndbandsupptökunni sem sýnir Scott hörfa afturábak þegar hann er skotinn, að því er CNN hefur eftir Justin Bamberg, einum af lögfræðingum fjölskyldunnar.
„Hendur hans eru niður með hliðum og hann er rólegur að sjá,“ sagði Bamberg. „Maður sér að hann er með eitthvað í hendinni, en það er ómögulegt að greina á myndbandinu hvað það er.“
Lögreglustjórinn Putney segir hins vegar að skammbyssa hafi fundist á vettvangi og að engin bók hafi fundist þar þrátt fyrir fullyrðingar fjölskyldunnar. Myndbandið veiti þá ekki afgerandi sjónræna sönnun á að hann hafi beint byssu að lögreglunni.“
Myndbandið sýni hins vegar að það hafi verið réttlætanlegt hjá lögreglumanninum sem skaut Scott að beita byssu sinni.
„Lögreglumaðurinn skynjaði að hann var ekki að var ekki að hlýða skipunum um að sleppa vopninu og að af honum stafaði yfirvofandi ógn,“ hefur Fox New eftir Putney.