Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir karlmanni sem hefur ítrekað brotið nálgunarbann og brottvísun af heimili stjúpdætra sinna og móður þeirra, sem jafnframt er eiginkona mannsins.
Manninum hafði verið gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur falli í máli hans, en þó ekki lengur en til 22. september. Sá úrskurður hefur nú verið framlengdur til 20. október.
Fjallað hefur verið ítarlega um mál mannsins í fjölmiðlum, en hann er ákærður fyrir að hafa í áraraðir brotið gegn mæðgunum með ítrekuðum kynferðisbrotum, líkamlegu ofbeldi og hótunum. Hvorki nálgunarbann né gæsluvarðhald hefur stöðvað brot mannsins gagnvart eiginkonu og stjúpdætrum, brot sem hófust í mars 2016 og linnti ekki fyrr en í sumar er maðurinn var dæmdur í gæsluvarðhald.
Frétt mbl.is: Glíma við afleiðingar ofbeldisins
Maðurinn var ákærður 18. júlí fyrir fjölmörg brot gagnvart eiginkonu sinni og stjúpdætrum. Meðal annars fyrir að hafa ítrekað nauðgað, eða allt að nokkrum sinnum í viku, eiginkonu sinni í sex ár, frá mars 2010 til mars 2016. Hótaði hann konu sinni með því að hann myndi stunda kynlíf með dætrum hennar eða henda þeim út af heimilinu, ef hún sinnti honum ekki kynferðislega. Þá hefur maðurinn hótað stjúpdætrum sínum ítrekað lífláti, ofbeldi og nauðgunum,
Hann sætir nú gæsluvarðhaldi, nálgunarbanni og brottvísun af heimili, en brotum sínum hélt hann áfram eftir að hann hóf að sæta gæsluvarðhaldi.
Áður hefur manninum verið gert að víkja úr réttarsal á meðan þolendur ofbeldisins bera vitni gegn honum fyrir dómi, en dómari hefur staðfest að nærvera hans við skýrslugjöf geti reynst konunni og dætrum hennar íþyngingjandi og haft áhrif á framburð þeirra.
Frétt mbl.is: Áfram í haldi vegna ítrekaðra brota gegn mæðgum