„Stóra málið er hugarfarsbreyting"

Menn þurfa að kunna undirstöðuatriðin.
Menn þurfa að kunna undirstöðuatriðin. mbl.is/Gunnlaugur Árnason

Sjó­menn vinna langa vinnu­daga við hættu­leg­ar aðstæður, fjarri flestu því sem þorri lands­manna tek­ur sem sjálf­sögðu þegar þörf er á fagaðstoð eða fyrstu hjálp. Því er afar brýnt að sjó­menn til­einki sér hug­ar­far og sam­vinnu sem stuðlar að aukn­um ár­angri í ör­ygg­is­mál­um, auk þess sem skil­greind­ir verk­ferl­ar verða að liggja fyr­ir ef slys ber að hönd­um.

Slysa­varna­skóli sjó­manna tók til starfa árið 1985. Mark­mið skól­ans er að efla ör­ygg­is­fræðslu sjó­manna með öfl­ug­um skóla sem upp­fyll­ir ís­lensk­ar og alþjóðleg­ar kröf­ur um þjálf­un sjó­manna og að auka þjón­ustu við sjó­menn og fleiri aðila í tengsl­um við sjó og vötn. Flest­ir nem­end­ur skól­ans starfa á fiski­skip­um, en lög­um sam­kvæmt verða all­ir sem starfa til sjós að ljúka nám­skeiði um ör­ygg­is­fræðslu.

Hilmar Snorrason skipstjóri á Sæbjörgu og skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna.
Hilm­ar Snorra­son skip­stjóri á Sæ­björgu og skóla­stjóri Slysa­varna­skóla sjó­manna. Ljós­mynd: Jim Smart

„Sjó­menn hafa verið skyldug­ir til að ljúka nám­skeiði Slysa­varna­skól­ans síðan 1997. Árið 2003 kom síðan sú viðbót að gerð er krafa um end­ur­mennt­un á fimm ára fresti,“ seg­ir Hilm­ar Snorra­son, skóla­stjóri Slysa­varna­skól­ans. „Um ára­mót­in taka svo gildi nýj­ar alþjóðleg­ar regl­ur sem kveða á um skyldu til auk­inn­ar end­ur­mennt­un­ar. Við erum hins veg­ar langt á und­an hvað varðar end­ur­mennt­un­ina, sem ger­ir það að verk­um að við för­um mun auðveld­ar en marg­ar aðrar þjóðir inn í þess­ar breyt­ing­ar sem taka gildi um ára­mót­in.“

Und­ir­stöðuatriðum grunn­náms­ins má skipta í fjóra flokka, að sögn Hilm­ars. Það eru sjó­björg­un, eld­varn­ir, skyndi­hjálp og ör­ygg­is­mál. Um borð í skóla­skip­inu Sæ­björgu er full­kom­in kennsluaðstaða bæði til bók­legr­ar kennslu og verk­legra æf­inga. Komi til elds­voða til sjós er ljóst að erfitt kann að reyn­ast að forða sér af vett­vangi, og því er áhersla lögð á kennslu í notk­un búnaðar til slökkvistarfa. Verk­leg­ar eld­varn­aræf­ing­ar eru haldn­ar á þar til gerðu æf­inga­svæði rétt utan við Reykja­vík og þá er full­kom­in aðstaða til reykköf­un­aræf­inga um borð í Sæ­björgu.

Varn­ir gegn sjórán­um og hryðju­verk­um meðal náms­efn­is

„Varðandi ör­ygg­is­mál­in eru við að kenna sjó­mönn­um varn­ir gegn hvers kon­ar árás­um; hryðju­verk­um, sjórán­um og öðru slíku, sem og vinnu­ör­yggi svo um er að ræða tölu­vert víðan vett­vang. Við tök­um á öllu sem sjó­menn eiga og þurfa að kunna. Stóra málið varðandi ör­ygg­is­mál sjó­manna er hins veg­ar hug­ar­fars­breyt­ing­in. Í þau 25 ár sem ég hef verið skóla­stjóri hef ég orðið vitni að því að menn hafa farið frá því að mæta á nám­skeið með hunds­haus og til­neydd­ir yfir í það að sýna gríðarleg­an metnað þegar kem­ur að ör­ygg­is­mál­um. Skip­stjórn­ar­menn hafa haft á orði við mig hvort þeir séu hugs­an­lega að verða of harðir í ör­ygg­is­mál­um um borð, en ég hef full­vissað þá um það að það er aldrei hægt að vera of harður í þeim efn­um. Það verður aldrei neinn full­nema í ör­ygg­is­mál­um eða út­skrif­ast þaðan. Þetta eru áfanga­sigr­ar en svo lengi sem við stönd­um frammi fyr­ir því að það verða slys á sjó­mönn­um er gíf­ur­leg þörf fyr­ir þessa fræðslu. Það sem við erum líka að sjá núna síðustu ár er gríðarleg fækk­un bana­slysa til sjós. Það er auðvitað ofsa­lega já­kvæð þróun og að okk­ar mati sterk­ur mæli­kv­arði á gæði ör­ygg­is­fræðslu.“

mbl.is