Tilkynningaskyldan skiptir sköpum

Slysum á sjómönnum fer blessunarlega fækkandi.
Slysum á sjómönnum fer blessunarlega fækkandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á árinu 2015 voru 219 slys á sjómönnum tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands. Um er að ræða 8% aukningu frá árinu áður en fækkun um 21% ef horft er til meðaltals áranna 2004 til 2014. Tilkynnt slys á sjómönnum á árunum 2000-2015 til Tryggingastofnunar Íslands og síðan SÍ eru samtals 4.820, en þróun í þessum efnum hefur verið mjög jákvæð undanfarin ár að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Ný lög um rannsóknir á sjóslysum tóku gildi árið 2000 og síðan hefur tilkynntum slysum fækkað umtalsvert. Rannsóknarnefndin telur árangurinn að miklu leyti tilkominn sökum þess að útgerðir í landinu hafa tileinkað sér og innleitt öryggiskerfi í skipum sínum sem hafa borið mikinn árangur. Þá hafi Slysavarnaskóli sjómanna unnið gríðarlega mikilvægt starf og náð miklum árangri á þessum vettvangi.

Í ljósi þeirrar jákvæðu og ánægjulegu þróunar sem hefur verið á tilkynningum til RNSA undanfarin ár virðist sem skilningur aðila í sjávarútvegi á mikilvægi tilkynningaskyldu sé að aukast. Nefndin bendir sérstaklega á gagnsemi tölulegra upplýsinga og beinir því til sjómanna og útgerðaraðila að halda áfram að sinna tilkynningaskyldu sinni hér eftir sem hingað til.

mbl.is