Kutbettin Gü­len handtekinn í Tyrklandi

AFP

Tyrkneska lögreglan handtók bróður Fet­hullah Gü­len í dag en Fet­hullah Gü­len er sakaður um að bera ábyrgð á valdaránstilrauninni í júlí. Fet­hullah Gü­len, klerkur, dvelur í sjálfskipaðri útlegð í Bandaríkjunum. 

Kutbettin Gü­len var handtekinn eftir að lögreglu barst ábending um hvar hann væri að finna. Var hann á heimili ættingja í Gaziemir-sýslu í Izmir-héraði. Hann er fyrstur af Gü­len-systkinunum sem er handtekinn í tengslum við valdaránstilraunina sem fór út um þúfur.

Hann er sakaður um aðild að vopnuðum vígasamtökum, segir í frétt ríkisfréttastofunnar. Kutbettin Gü­len er í yfirheyrslum hjá hryðjuverkadeild lögreglunnar og hald var lagt á bækur sem hann hafði undir höndum. 

Tyrknesk yfirvöld hafa gefið út handtökuskipun á hendur Gü­len og krafið bandarísk yfirvöld um að framselja hann til Tyrklands. Hann neitar því hins vegar að tengjast valdaráninu á nokkurn hátt en hann hefur verið í útlegð frá árinu 1999.

mbl.is