Bakkafrumvarp mun standast skoðun

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umdeild lagasetning um raflínur til stóriðju á Bakka mun standast alla skoðun, að sögn Jóns Gunnarssonar, formanns atvinnuveganefndar Alþingis. Landvernd hefur boðað að henni verði vísað til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Jón segir það rétt manna að láta á hana reyna fyrir dómstólum en segir málið verða afgreitt.

Náttúruverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd hafa kært fyrirhugaða lagasetningu um Bakkalínur til ESA. Frumvarp um að heimili lagningu raflínanna var lagt fram eftir að úrskurðarnefnd í umhverfis- og auðlindamálum stöðvaði framkvæmdir við þær á meðan hún færi yfir kæru Landverndar á framkvæmdaleyfi.

Náttúruverndarsamtökin telja að réttur þeirra til að bera ákvarðanir stjórnvalda undir dómstóla eða óháða aðila sé að vettugi virtur með frumvarpinu.

Jón segist gera ráð fyrir að frumvarpið verði afgreitt áður en þingi verður slitið fyrir þingkosningarnar í lok þessa mánaðar. Miklir fjárhagslegir hagsmunir séu undir. Hann óttast ekki kæru til ESA. 

„Við höfum þær upplýsingar frá þeim sérfræðingum sem við hlustum á að þetta muni standast alla skoðun en það er auðvitað réttur manna að láta reyna á það fyrir dómstólum,“ segir hann.

Mikilvægt að samþykkja sem fyrst

Meirihluti atvinnuveganefndar hefur þegar lagt til að frumvarpið verði samþykkt efnislega óbreytt. Það bíður nú annarrar umræðu í þinginu.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur boðað að úrskurður hennar í málinu liggi fyrir í næstu viku. Jón segir að í bréfi nefndarinnar til atvinnuveganefndar hafi sú tímasetning verið með „öllum fyrirvörum“.

„Ég tel eftir sem áður mikilvægt í ljósi þess að á því eru fyrirvarar og við vitum í raun ekkert hvenær þetta kemur frá þeim að þingið afgreiði málið sem fyrst,“ segir Jón.

mbl.is