Tvær vikur eru liðnar síðan leikkonan Angelina Jolie sótti um skilnað frá leikaranum Brad Pitt. Tíðindin komu í kjölfar atviks í einkaþotu þeirra hjóna, þar sem leikarinn er sagður hafa veist að 15 ára syni þeirra.
Leikarinn er sagður algerlega niðurbrotinn og illa á sig kominn í kjölfar ákvörðunar Jolie.
„Hann er í slæmu ásigkomulagi og trúir varla að svona sé fyrir honum komið, en börnin eru það eina sem hann heldur í,“ sagði ónefndur heimildamaður tímaritsins Us Weekly.
„Hann hefur reitt sig á fjölskyldu sína og er í stöðugu sambandi við foreldra sína, nána vini og umboðsmann sinn. Mamma hans er í stöðugu sambandi við hann.“
Áður hefur verið greint frá því að Jolie hafi fengið forræði yfir börnunum til bráðabirgða. Pitt fær þó að heimsækja þau, í fyrstu undir eftirliti sérfræðings sem síðan mun ákvarða um framhaldið.
Því hefur einnig verið haldið fram að leikaranum verði gert að fara í áfengis- og fíkniefnapróf, en hann hefur þegar gengist sjálfviljugur undir eitt slíkt sem reyndist neikvætt.