Stjórnmálaskoðanir Bandaríkjamanna eru ráðandi þáttur í afstöðu þeirra til loftslagsmála. Ný skoðanakönnun sýnir að frjálslyndir eru mun líklegri til þess að treysta vísindamönnum um loftslagsbreytingar en íhaldsmenn. Aðeins 36% svarenda hafa miklar áhyggjur af loftslagsmálum.
Afneitun á loftslagsvísindum hefur verið landlæg á hægri væng bandarískra stjórnmála síðustu árin og staðfestir könnun Pew-rannsóknarstofnunarinnar sem gerð var á meðal 1.500 Bandaríkjamanna um allt land það.
Þannig sögðust 70% frjálslyndra demókrata „treysta loftslagsvísindamönnum mikið til að leggja fram ítarlegar og nákvæmar upplýsingar um orsakir loftslagsbreytinga,“ eins og spurningin var orðuð. Aðeins 15% íhaldssamra repúblikana voru sama sinnis.
Ríflega helmingur frjálslyndra sögðust telja loftslagsvísindamenn hafa mjög góðan skilning á orsökum loftslagsbreytinga og 55% töldu að víðtækur samhljómur væri á meðal vísindamannanna um þær. Á móti töldu 11% repúblikana að góður skilningur væri til staðar á orsökunum og 16% að eining væri um þær.
Repúblikanar voru einnig mun líklegri til að telja að annarlegar hvatir byggju að baki hjá vísindamönnunum. Þannig töldu 57% vilja vísindamannanna til að ná starfsframa hafa oftast áhrif á niðurstöður þeirra um loftslagsmál og 54% að stjórnmálaskoðanir þeirra hefðu áhrif. Aðeins 16% frjálslyndra demókrata voru sömu skoðunar.
Flokkadrættir komu ekki síður í ljós þegar spurt var um lausnir á loftslagsvandanum. Fleiri en þrír af hverjum fjórum demókrötum töldu það breyta miklu að takmarka losun orkuvera á gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænni hlýnun en aðeins innan við þriðjungur repúblikana.
Hlutföllin voru svipuð þegar kom að gagnsemi alþjóðasáttmála til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Rétt rúmur fjórðungur repúblikana taldi þá gera gagn á móti 71% demókrata.
Sami klofningur átti við um hertar reglur um eldsneytisnýtni bifreiða, græna skatta og framlag einstaklinga til að draga úr losun.
Vísindalæsi fólks hafði almennt ekki afgerandi áhrif á skoðanir þess á loftslagsmálum samkvæmt könnuninni. Cary Funk, aðstoðarframkvæmdastjóri rannsókna hjá Pew, segir að vísindaþekking demókrata virðist hafa áhrif á skoðanir þeirra á loftslagsmálum og trausti á vísindamönnum en ekki repúblikana.
„Til dæmis eru demókratar sem eru með mikla vísindaþekkingu sérstaklega líklegri til að trúa því að jörðin sé að hlýna vegna aðgerða manna, að telja vísindamenn hafa góðan skilning á loftslagsbreytingum og að treysta upplýsingum loftslagsvísindamanna um orsakir loftslagsbreytinga en repúblikanar með mikla vísindaþekkingu eru hvorki líklegri né ólíklegri til að hafa þessar skoðanir,“ segir Funk.
Könnunin leiddi þó í ljós að nokkur þverpólitísk sátt virðist vera um stuðning við sólar- og vindorku. Þannig sögðust 89% svarenda vilja fleiri sólarorkuver og 83% vildu fleiri vindorkuver.