Borin hafa verið kennsl á manneskju sem lögreglan í Los Angeles skaut til bana um síðustu helgi. Um var að ræða 16 ára pilt af suður-amerískum uppruna , samkvæmt upplýsingum frá dánardómstjóra. Að sögn lögreglunnar hélt hann á eftirlíkingu af byssu sem leit út fyrir að vera mjög raunveruleg.
Pilturinn, sem hét Daniel Henrique Perez, var sá annar í röðinni sem lögreglan í Los Angeles skaut til bana um síðustu helgi.
Hinn hét Carnell Snell og var 18 ára svartur Bandaríkjamaður. Hann var skotinn til bana nóttina áður eftir að hafa verið eltur af lögreglunni.
Lögreglan sendi síðar frá sér myndband þar sem pilturinn virtist halda á byssu.
Frétt mbl.is: Lögreglan skaut 18 ára mann til bana
Tveir svartir Bandaríkjamenn voru jafnframt drepnir í síðustu viku í suðurhluta Kaliforníu. Sá fyrri, Reginald Thomas, lést eftir að hafa verið skotinn með rafbyssu af lögreglunni í Pasadena. Hinn hét Alfred Olango. Hann var skotinn til bana af lögreglunni í San Diego þegar hann hélt á rafrettu. Lögreglan hélt að um vopn væri að ræða.
Frétt mbl.is: Í skotstellingu með rafrettu
Öll málin hafa vakið upp miklar umræður um meint lögregluofbeldi í Bandaríkjunum.