„Verðum að líta til reynslu annarra þjóða"

Sitt sýnist hverjum um ágæti hugmynda um uppboð á aflaheimildum.
Sitt sýnist hverjum um ágæti hugmynda um uppboð á aflaheimildum. mbl.isÓmar Óskarsson

Þessi dægrin ber tals­vert á þeirri umræðu að skyn­sam­legt væri að bjóða upp afla­heim­ild­ir í því augnamiði að auka tekj­ur rík­is­sjóðs af fisk­veiðum.

Sig­urður Steinn Ein­ars­son skrifaði loka­rit­gerð sína í sjáv­ar­út­vegs­fræði um veiðigjöld og hvernig gjald­töku er háttað í öðrum lönd­um. Hann hef­ur sérþekk­ingu á fisk­veiðistjórn­un og gjald­töku af auðlind­um sjáv­ar.

Sig­urður skrifaði grein ný­verið þar sem hann lýs­ir þeirri þróun sem varð í kjöl­far þess að upp­boð á afla­heim­ild­um var tekið upp í Rússlandi og Eistlandi um alda­mót­in. Þar bend­ir Sig­urður á að mikið sé vitnað í til­raun­ir Fær­ey­inga í þess­um efn­um og því gjarn­an verið haldið fram að upp­boðstilraun­ir þeirra hafi tek­ist vel. Hafa beri þó í huga að aðrar þjóðir hafi reynt fyr­ir sér með upp­boð á afla­heim­ild­um en lítið sem ekk­ert hafi verið horft til reynslu þeirra þjóða í umræðu hér á landi.

Upp­boðsleið Eista og Rússa

„Það eru í raun­inni aðeins þrjár þjóðir sem hafa ákveðið að prófa upp­boð á afla­heim­ild­um. Það eru Rúss­land, Eist­land, Falk­lands­eyj­ar og nú síðast Fær­eyj­ar, eins og við þekkj­um,“ seg­ir Sig­urður. Hann tek­ur fram í grein sinni um málið snúi öðru­vísi fyr­ir íbúa Falk­lands­eyja því sök­um fá­menn­is þar hafi þjóðin litla burði til að sækja þann afla sem heim­ilt sé að veiða og því hafi verið leitað til­boða frá er­lend­um fyr­ir­tækj­um.

Sig­urður seg­ir að „um alda­mót­in var svipuð staða í Eistlandi og Rússlandi og nú er hér, þ.e. menn vildu fá meira úr þess­um auðlinda­arði í sam­eig­in­lega sjóði og upp­boð á afla­heim­ild­um var sú leið sem menn ákváðu að fara þar á þess­um tíma.“

„Eist­ar buðu upp 10% afla­heim­ilda á ár­un­um 2001 til 2003, þegar ár­ang­ur­inn af upp­boðskerf­inu var met­inn. Niðurstaðan var fjarri því að vera já­kvæð. Upp­boðskerfið var talið hafa leitt til sóun­ar á auðlind­inni, orðið til þess að smærri fyr­ir­tæki urðu gjaldþrota og leitt til stór­minnk­andi starfs­ör­ygg­is sjó­manna. Af þess­um ástæðum var ákveðið að hætta upp­boðum á afla­heim­ild­um,“ bend­ir Sig­urður á.

Mik­ill sam­drátt­ur í skipa­fjölda og starfs­ör­yggi sjó­manna ógnað

 „Þar varð gíf­ur­leg­ur sam­drátt­ur í fjölda skipa strax á fyrsta ári. Mönn­um þótti það svo sem í lagi, því það þurfti hvort eð er að auka hag­kvæmni í sjáv­ar­út­vegi. En sam­hliða því bar strax á því að sjó­menn sjálf­ir bentu á að þeirra starfs­ör­yggi var lagt í rúst,“ held­ur Sig­urður áfram.

Í aust­ur­hluta Rúss­lands stóð einnig yfir upp­boð á afla­heim­ild­um árin 2001 til 2003. Von­ir stóðu til að leiðin myndi auka hlut rík­is­ins í auðlindar­ent­unni, auka gagn­sæi varðandi út­hlut­un á fisk­veiðiheim­ild­um og gera at­vinnu­grein­ina arðbær­ari.

„Hjá Rúss­um var þetta voðal­ega gott og blessað í byrj­un. Menn fá þarna í rík­iskass­ann gíf­ur­lega fjár­muni þrátt fyr­ir að all­ur kvót­inn hefði ekki selst. Þetta voru þannig fjár­hæðir að menn hefðu ekki getað ímyndað sér að þetta myndi heppn­ast svona vel, í það minnsta þar sem til­gang­ur­inn var jú að ná sem mestu í sam­eig­in­lega sjóði,“ seg­ir hann. „Það er í takt við það sem við erum að sjá í Fær­eyj­um akkúrat núna. Það er að fást miklu hærra verð en menn hefðu giskað á fyr­ir­fram. Þeir hafa meira að segja sjálf­ir sagt að þetta sé ekki sjálf­bært verð fyr­ir þess­ar heim­ild­ir.“

Drama­tísk­ur viðsnún­ing­ur eft­ir fyrsta árið

Sjáv­ar­út­veg­ur í aust­ur­hluta Rúss­lands skilaði 6 millj­arða króna hagnaði árið 2000. Drama­tísk­ur viðsnún­ing­ur átti sér hins veg­ar stað 2001; tap varð af rekstri sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja á svæðinu  sem nam 6 millj­örðum króna.

Upp­lýst var að árið 2001 væru 90% sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja  á um­ræddu svæði þegar illa stödd og jafn­vel á barmi gjaldþrots. Þá hófu sveit­ar­fé­lög á upp­boðssvæðinu strax árið 2001 að kvarta sár­an því upp­boðskerfið leiddi til þess að 96% af skatt­tekj­um af sjáv­ar­út­vegi runnu til rík­is­ins en ein­ung­is 4% til sveit­ar­fé­laga. Áður höfðu 34% af skatt­tekj­um af sjáv­ar­út­vegi runnið til sveit­ar­fé­laga.

Skuld­ir sjáv­ar­út­vegs­ins á svæðinu fóru úr 30% af fram­leiðslu­verðmæti árs­ins 2000 í 66% af fram­leiðslu­verðmæti árs­ins 2002, en sú þróun bend­ir ótví­rætt til þess að sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­in hafi boðið of hátt verð í þær heim­ild­ir sem boðnar voru upp.“

Sigurður Steinn segir Íslendinga verða að horfa til reynslu annarra …
Sig­urður Steinn seg­ir Íslend­inga verða að horfa til reynslu annarra þjóða í tengsl­um við hug­mynd­ir um upp­boð á afla­heim­ild­um. Mynd af heimasíðu Síld­ar­vinnsl­unn­ar

Ekki sjálf­bært verð

 Sig­urður bend­ir á að í Fær­eyj­um sé að fást miklu hærra verð en menn hefðu giskað á fyr­ir­fram. Þeir hafi meira að segja sjálf­ir sagt að það verð sem fékkst fyr­ir heim­ild­irn­ar sé ekki sjálf­bært.

„Það er í raun­inni akkúrat það sem var uppi á ten­ing­un­um hjá þeim þjóðum sem höfðu farið þessa leið áður, Rússlandi og Eistlandi,“ bendr Sig­urður á. „Menn voru að kaupa sér kvóta með því að auka skuld­setn­ingu eða selja eign­ir og síðan varð gríðarleg­ur viðsnún­ing­ur í Rússlandi. Þar sem áður var hagnaður var orðinn að tapi á afar skömm­um tíma.“

Reynsla Rússa og Eista af um­gengni um auðlind­ina í kjöl­far upp­boðanna bend­ir Sig­urður á að hafi verið fjarri því að vera já­kvæð.

„Hvati þeirra sem stunda veiðar und­ir þess­um for­merkj­um er að fá sem mest fyr­ir sitt pund, en ekki ganga vel um auðlind­ina með lang­tíma­sjón­ar­mið í huga. Af því leiðir að menn forðast að koma með smærri fisk að landi, eins og dæm­in sanna. Oft keyptu fyr­ir­tæki í þess­um lönd­um afla­heim­ild­ir á svo háu verði að skip þeirra komu ein­ung­is með fisk af hag­stæðustu stærð að landi. At­hygli vakti að nán­ast eng­in smáufsi veidd­ist held­ur ein­ung­is ufsi af þeirri stærð sem hentaði best til vinnslu. Þetta benti ótví­rætt til mik­ils brott­kasts á smá­fiski,“ bend­ir Sig­urður á.

„Talið var að fram­hjáland­an­ir og ólög­leg­ar veiðar hafi auk­ist stór­lega með til­komu upp­boðskerf­is­ins og hafi slík­ur afli numið um 120 millj­örðum króna árin 2001-2003. Al­mennt var upp­boðskerfið álitið hafa leitt til slæmr­ar um­gengi um auðlind­ina og má nefna sem dæmi að veiðiheim­ild­ir í ala­skaufsa voru 2,3 millj­ón­ir tonna 1998 en ein­ung­is 930 þúsund tonn 2002.“ Þetta seg­ir Sig­urður lýs­andi fyr­ir um­gengni manna um auðlind­ina á þess­um tíma.

Hagnaður rík­is­ins of dýru verði keypt­ur

Í júlí 2003 hættu rúss­nesk stjórn­völd að bjóða upp afla­heim­ild­ir á svæðinu og var aft­ur tekið upp kerfi sem byggði á veiðireynslu. Fyr­ir­tækj­un­um var gert að greiða veiðigjöld og runnu 80% þeirra til rík­is­ins en 20% til sveit­ar­fé­laga. Skyndi­hagnaður rík­is­ins af upp­boðsleiðinni reynd­ist of dýru verði keypt­ur. Verðið á afla­heim­ild­un­um á markaði var í engu sam­ræmi við afurðaverð og ljóst að slíkt gekk ekki til lengd­ar.

Einn af meint­um kost­um hinar títtn­en­fdu upp­boðsleiðar telja menn að fel­ist í dreif­ingu verðmæta sjáv­ar á fleiri hend­ur en nú er raun­in. Sig­urður til­tek­ur að í Fær­eyj­um hafi niðurstaðan orðið sú að tvö fé­lög hafi fengið 95% af fisk­veiðikvót­an­um í Bar­ents­hafi og þrjú fé­lög nældu sér í 85% upp­sjáv­ar­kvót­ans. Niðurstaða útboða í Fær­eyj­um sé því ekki auk­in dreif­ing verðmæta held­ur þvert á móti enn frek­ari samþjöpp­un.

„Ég held að þegar menn skoði þessa reynslu Eista og Rússa að þá hljóti þeir að gera sér grein fyr­ir því að þetta er ekk­ert ein­falt mál. Við erum með kerfi sem virk­ar rosa­lega vel. Það er eng­in þjóð í heim­in­um sem ger­ir jafn­mikið úr auðlind sjáv­ar og við. Ef menn vilja auka tekj­ur rík­is­ins úr grein­inni þá eru til aðrar leiðir til þess en þessi upp­boðsleið,“ seg­ir Sig­urður Steinn að lok­um.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina