Brad fékk að hitta börnin

Brad Pitt og Angelina Jolie á meðan allt lék í …
Brad Pitt og Angelina Jolie á meðan allt lék í lyndi. AFP

Fregnir herma að Brad Pitt hafi loks fengið að hitta börn sín en þau hafa búið hjá móður sinni, Angelinu Jolie, síðan hún sótti um skilnað frá leikaranum fyrir tæpum þremur vikum.

Jolie fékk forræðið yfir börnunum til bráðabirgða, en það rennur út 20. október, og þarf þá að semja um forræðið upp á nýtt líkt og fram kemur í frétt Daily Mail.

Pitt var veitt heimild til að heimsækja börnin, en greint hefur verið frá því að slíkar heimsóknir eigi að fara fram undir eftirliti sérfræðings fyrst um sinn.

Þá hefur leikarinn einnig verið sagður þurfa að gangast undir áfengis- og fíkniefnapróf reglulega, en hann er sakaður um að hafa misst stjórn á sér í einkaþotu þeirra hjóna og veist að 15 ára gömlum syni sínum. Leikaranum er gert að sök að hafa verið afar drukkinn þegar atvikið átti sér stað.

Fram hefur komið að bandaríska alríkislögreglan hafi verið að safna upplýsingum um atvikið, en engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort formleg rannsókn fari fram.

mbl.is