Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla hjá aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands þar sem kosið er um vinnustöðvun. Verði hún samþykkt hefst verkfall sjómanna 10. nóvember næstkomandi. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir góða kjörsókn og baráttuhug í sínu fólki.
„Sjómenn hafa verið kjarasamningalausir frá 1. janúar 2011,“ segir Vilhjálmur. „Ég leyfi mér að fullyrða að þeir hafi sýnt langlyndi í þessum efnum. Ég veit ekki um neina aðra vinnandi stétt hér á landi sem hefur verið kjarasamningalaus yfir svo langt tímabil og nú þetta bara orðið gott.“
Hann bendir á að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hafi afnumið sjómannaafsláttinn í nokkrum þrepum og nú hafi hann alfarið lagst af. En hverjar eru helstu kröfur sjómanna í þessari deilu milli sjómanna og útgerða sem nú stendur yfir?
„Fyrst má nefna nýsmíðaálagið svokallaða. Það felur bara ósköp einfaldlega í sér að sjómenn þurfa að sæta 10% frádrætti á laun sín sem rennur til útgerðarinnar. Þá lítur dæmið þannig út að sjómaður sem hefur heildartekjur upp á milljón á mánuði greiðir hvorki meira né minna en 100.000 krónur beint aftur til útgerðarinnar. Það gerir 1,2 milljónir yfir árið,“ segir Vilhjálmur. „Það væri áhugavert að sjá viðbrögð flugmanna ef þeim yrði tilkynnt að þeir skyldu greiða 10% af sínum launum til flugfélagsins, svo það gæti nú endurnýjað flugvélaflotann sinn. Ég er hræddur um að flugmenn yrðu ekki glaðir með það. En það þurfa sjómenn að þola,“ bætir hann við.
Vilhjálmur heldur áfram: „Svo er það sjómannaafslátturinn. Við erum verulega ósáttir með að hann hafi verið afnuminn án þess að nokkuð komi í staðinn. Eins má nefna mönnunarmálin. Það hefur fækkað gríðarlega í stéttinni undanfarin ár, á sama tíma og útgerðirnar hagnast sem aldrei fyrr. Svo er fleiri atriði sem við höfum tiltekið og sett fram kröfur um og viljum sjá verða að veruleika.“
Tengt efni: Skiptum bara í fjöru!
Hann bendir á að undanfarin ár hafi útgerðir hagnast allverulega og nemi nú hreinn hagnaður útgerðanna um milljarði hverja viku ársins: „52 milljarðar á ári í hreinan hagnað hlýtur að gefa útgerðum svigrúm til að hlúa betur að þeim sem fyrir þær vinna. Ég er ekkert hrifinn af því að ríkið sé með puttana í öllu sem gerist í atvinnulífinu alltaf hreint, en það gefur auga leið að allir græða á því að vel sé hlúð að hinum vinnandi stéttum. Þeir eru enda grundvöllur þess hagnaðar sem útgerðirnar eru að sýna, sjómennirnir. Útgerðirnar eru byggðar á vinnu sjómanna. Þeir eru bakbeinið í þessu og halda uppi þessari starfsemi.“
Nýlega kom fram í viðtali 200 mílna við Jónas Þór Jónasson hæstaréttarlögmann að útgerðir væru sumar hverjar farnar að gera tímabundna ráðningarsamninga við sjómenn fyrir hverja veiðiferð fyrir sig í því skyni að firra sig bótaábyrgð ef til óvinnufærni kæmi vegna frítímaslysa. Vilhjálmur segir flestar stóru útgerðirnar hafa sinnt sínum skyldum vel í þessu sambandi, „en það er grafalvarlegt mál ef þetta er verklagið sem menn viðhafa. Menn eiga að vera tryggðir og við munum fylgjast með gangi þessara mála okkar megin frá. Það er alveg klárt.“
Hann segir ástandið nú þannig vaxið að hann hafi enga trú á öðru en að menn muni láta sverfa til stáls ef ekki stendur til að mæta þeim kröfum sem sjómenn hafa lagt fram við SFS. „Ég trúi því að það sé þarna svigrúm. Það hlýtur að vera gott fyrir alla aðila að menn fái sanngjarnt endurgjald fyrir sína vinnu. Það þýðir þá auknar tekjur í formi skatts til ríkis og sveitarfélaga og til samfélagsins í heild. Við vitum að svigrúmið er þarna og menn ætla að standa á því sem er rétt. Það er bara þannig,“ segir Vilhjálmur Birgisson.