Pitt verður ekki ákærður

Brad Pitt verður ekki ákærður.
Brad Pitt verður ekki ákærður. AFP

Bandaríski leikarinn Brad Pitt verður ekki saksóttur vegna meintrar uppákomu í flugvél þar sem hann er sagður hafa hellt sér yfir eitt barna sinna og slegið það. Alríkislögreglan var sögð vera að skoða málið en nú herma heimildir slúðurpressunnar vestanhafs að enginn verði ákærður enda hafi alríkislögreglan aldrei hafið rannsókn á því formlega. Til þess var ekki talin ástæða.

Í frétt slúðurveitunnar TMZ segir að einhver hafi tilkynnt málið til barnaverndaryfirvalda í Los Angeles en að þau hafi komið málinu áfram til alríkislögreglunnar þar sem atvikið hafi átt sér stað í lögsögu hennar.

Samkvæmt heimildum TMZ hóf FBI hins vegar aldrei formlega rannsókn á málinu og telur að það hefði aldrei átt að koma inn á sitt borð yfir höfuð.

Fram kom í fjölmiðlum fyrir nokkrum vikum að atvikið um borð í flugvélinni hefði verið kornið sem fyllti mælinn hjá Angelinu Jolie. Hún hafi í kjölfarið sótt um skilnað. Sagt var að Pitt hefði lagt hendur á Maddox, elsta son þeirra hjóna. 

Í frétt TMZ segir að barnaverndaryfirvöld hafi kannað málið og m.a. tekið skýrslur af fjölskyldum Pitts og Jolie. Hins vegar hafi þau, að minnsta kosti enn sem komið er,  ekkert aðhafst frekar. 

Jolie hefur nú tímabundið forræði yfir öllum sex börnum þeirra Pitts.

mbl.is