Yfirvöld í Ankara í Tyrklandi hafa bannað fjöldafundi og mótmæli þar til í lok nóvember vegna vísbendinga um mögulega hryðjuverkaárás. Ákvörðunin samræmist neyðarráðstöfunum stjórnvalda, sem tóku gildi í kjölfar valdaránstilraunarinnar í landinu í júlí.
Að sögn öryggisyfirvalda í höfuðborginni bárust þeim upplýsingar um að „bönnuð“ hryðjuverkasamtök væru að leggja drög að árás á svæðinu. Samtökin eru sögð hafa í hyggju að láta til skarar skríða þar sem fólk kemur saman.
Íbúar höfuðborgarinnar hafa margsinnis orðið fyrir árásum sem ýmist hafa verið eignaðar jíhadistum eða kúrdískum bardagamönnum. 103 létust til að mynda í sprengjuárás á friðarsinna í október 2015, 30 í árásum í febrúar á þessu ári og 37 í mars.