Mark Billingham, fyrrverandi lífvörður Angelinu Jolie og Brad Pitt, hefur greint frá því að leikararnir hafi óttast að börnum þeirra yrði rænt og krafist yrði lausnargjalds fyrir þau.
„Mesta áhyggjuefni þeirra var að börnunum yrði rænt, þetta snýst allt um peninga,“ sagði lífvörðurinn í samtali við dagblaðið The Sun.
„Angie og Brad höfðu miklar áhyggjur af því hver kæmi nálægt börnunum þeirra. Þau treystu mér fyrir börnunum, ég bjó með þeim allan tímann. Ég mátti þó fara með börnin hvert sem mér sýndist. Enginn annar fékk að gera það. Jafnvel þegar ég vildi auka gæsluna og fá inn nýtt fólk hleyptu þau þeim ekki nálægt börnunum.“
Þá heldur Billingham því jafnframt fram að hann hafi eytt svo miklum tíma með börnunum að hann hafi nánast gengið þeim í föðurstað.
Billingham, sem einnig hefur sinnt öryggisgæslu fyrir Russell Crowe, Sean Penn, Kate Moss og Tom Cruise, starfaði fyrir fjölskylduna í hálft annað ár en hann segist hafa hætt því hann hafði engan tíma fyrir eigin fjölskyldu.