New York er hlaðborð matarunnandans og það má með sanni segja að þar sé hægt að finna allt milli himins og jarðar. Það er fátt skemmtilegra en að rölta um borgina og fá sér eitthvert
smáræði hér og þar og upplifa þannig hina einu sönnu New York. Það er engin ástæða til að borða vondan mat og því borgar sig að lesa sér vel til um góða staði og fletta upp staðsetningum til að forðast vonbrigði. Það getur verið sniðugt að fara á dýrari staðina í hádeginu, þar sem maturinn er gjarnan ódýrari í hádeginu en alveg eins góður.
Hillstone er í miklu uppáhaldi hjá ófáum íslenskum ferðalöngum. Staðurinn tekur við borðapöntunum og er á tveimur stöðum í NY. Steikarsalatið þarna er yfirnáttúrulegt og hafa ófáir reynt að endurtaka leikinn í eigin eldhúsi með misjöfnum árangri. Það inniheldur steik, salthnetur, núðlur, lárperu, mangó, myntu og kóríander svo fátt eitt sé nefnt. Hamborgararnir og sushi-ið er einnig ómótstæðilegt! Þarna er líka fín stemming ef fólk vill kíkja í drykk og smárétt eða kokkteila. Hillstone er númer 167 af 9.989 veitingahúsum skráðum í NY á Tripadvisor.
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Meðalverð á aðalrétti (kvöld): 20-45 $
Vín hússins: frá 13 $
Mercer Kitchen í SoHo er klassískt svar hjá mörgum þegar spurt er um uppáhaldsstað í NY. Þarna er að finna stórkostlegan hægeldaðan lax til að mynda. Fólk hefur kvartað undan að þjónustan sé ekki nægilega góð en flestir eru sammála um að maturinn sé mjög góður.
Tripadvisor-skor: 4 af 5.
Meðalverð á aðalrétti (kvöld): 25-45 $
Vín hússins: frá 9$
Murray‘s Cheese Bar í West Village er stórkostlegur staður, lítill, smart og starfsfólkið skemmtilegt. Í grunninn er þetta osta- og vínbar en býður einnig upp á dögurð, hádegis- og kvöldverð. Það er skemmtilegt að detta þarna inn í vínglas og biðja þjóninn um að para smárétti og osta við vínið. Nú, eða eftirrétt. Karamellusósan er unaðsleg, en hún er seld í litlu sælkeraversluninni hliðin á barnum. Murray er með tilboð á drykkjum frá 16-18 í miðri viku nema frá kl 17 á mánudögum. Staðurðinn er númer 92 af 9989 á Tripadvisor, sem telst ansi gott.
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á ostabakka með þremur ostum: 16 $
Vín hússins: frá 11 $ (8 $ á tilboðstíma / 2 fyrir 1 af völdum bjór á krana)
MagnoliaBakery. Þetta er hið margrómaða Sex and the City-bakarí þar sem þær stöllur sátu ósjaldan og drekktu sorgum sínum í smjörkremi. Red Velvet-bollakakan er ólýsanleg og ekki verra að fá ískalda mjólk með. Bakaríið er lítið og engin setuaðstaða svo það er best að kippa gúmmelaðinu með sér og setjast á útibekk og njóta þess að horfa á mannlífið. Bakaríið er á nokkrum stöðum svo þú getur í raun verið í kolvetnisþoku alla ferðina ef svo ber undir. Ef þú ferð í upprunalega bakaríið á Bleecker Street (þar er Murray‘s Cheese Bar líka) er aðeins nokkurra mínútna gangur að tröppunum hennar Carrie Bradshaw, það er að segja húsinu sem notað var í upptökur á þáttunum.
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á bollaköku: frá 3,50 $
Eataly er stór ítölsk sælkeraverslun og matarmarkaður. Það er stórskemmtilegt að rölta um verslunina og skoða vörur og fá sér einn og einn rétt á básunum/veitingahúsunum þar inni eða versla inn í veislumáltíð til að elda heima. Þar er meðal annars ávaxta- og grænmetissala, bakarí, vínbúð og smökkun, nutella-bar, pastastaður, borð með fersku pasta, ostaborð og svo mætti lengi telja. Básarnir eru hver öðrum girnilegri. Á heimasíðu verslunarinnar má sjá upplýsingar um uppákomur og úrval.
Dos Caminos. Matgæðingurinn Eva Laufey Kjaran fór nýlega til New York og kolféll þar fyrir mexíkóska staðnum Dos Caminos. Hún segir það hreinlega vera nauðsyn að fara á þennan stað enda eigi hún erfitt með að hætta að hugsa um matinn. „Fáið ykkur surf & turf tortillu. Það er eitt af því besta sem ég hef smakkað og ferskt guacamole í forrétt og margarítur með,“ mælir Eva með. Cortney Kardashian heldur mikið upp á staðinn og fór til að mynda þrisvar sinnum á hann í þáttunum Courtney and Kim take New York.
Á vissum tímum má fá drykki frá 4 $!
Tripadvisor-skor: 4 af 5.
Meðalverð á aðalrétti (kvöld): 20-25 $
Vín hússins: frá 11 $
Jing Fong er einn af uppáhaldsstöðum borgarfulltrúans fyrrverandi Sóleyjar Tómasdóttur. Staðurinn er á annarri hæð í húsi í Chinatown og þykir bjóða upp á gott Dim Sum meðal annars. Sóley segir staðinn vera mjög stóran og skrítinn og jafnvel ósmekklegan á köflum en maturinn sé virkilega góður. Staðurinn er ódýrari í miðri viku og jafnan mjög mikið að gera. Vanir gestir mæla með að mæta snemma í hádeginu, eða upp úr 11.
Tripadvisor-skor:4 af 5.
Verð á 2-4 smáréttum (kvöld): 15-20 $
Vín hússins: 11 $
Cafe Habana er vinsæll kúbverskur/mexíkóskur staður. Eva Einarsdóttir borgarfulltrúi og Hafdís Inga Hinriksdóttir, félagsfræðingur og förðunarmeistari úr Innlit Útlit, halda báðar mikið upp á þennan stað. „Mér finnst nauðsynlegt að fá mér frosna jarðarberjamargarítu, fræga maísinn þeirra og lárperu-quesadillas,“ segir Hafdís. Veitingahúsið sýnir líka reglulega klassískar myndir og er með skemmtilegar uppákomur. Stjörnurnar elska staðinn, en meðal fastagesta eru Sean Penn, Rachel Bilson, Cindy Crawford og Matthew McConaughey. Ekkert að því!
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á 2-4 smáréttum (kvöld): 12-20 $
Vín hússins: frá 8 $
Jack‘s Wife Freda er staður fyrir öll skilningarvit. Maturinn er ferskur og einstaklega fallegur. Þeir sem þekkja til mæla með staðnum í dögurð eða hádegisverð og flösku af Cava með. Instagrammið hjá þeim er svo girnilegt að það er engu lagi líkt! Saga staðarins er falleg ástar- og fjölskyldusaga sem gaman er að lesa sér til um á heimasíðu veitingahússins. Ekki er ólíklegt að Maya, eiginkona Dean (barnabarn Fredu) muni afgreiða ykkur. Þið þekkið hana á svörtum gleraugunum og stóru brosi.
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á rétti í dögurði/hádegisverði: 10-15 $
Vín hússins: frá 8 $
Marlow and Sons er staður í Brooklyn sem aðeins eldar úr lífrænu og leitast við að versla sem mest beint frá býli. Matseðillinn breytist nánast daglega, en hann má sjá á heimasíðu staðarins. Maturinn er ferskur, heiðarlegur, ekki ofhlaðinn af skrauti og veseni og hrikalega góður. Staðurinn er í miklu uppáhaldi hjá Oliviu Wild leikkonu, sem elskar ensku baunasúpuna sem þar fæst.
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á aðalrétti (kvöld): 20-30 $
Vín hússins: frá 11 $
By CHLOE er veganstaður sem býður upp á gott úrval djúsí rétta á borð við hamborgara, salöt og kökur. Kokkurinn og annar eigenda staðarins er hin 29 ára gamla Chloe. Staðurinn var opnaður fyrir rúmu ári en í dag eru þeir þrír og enn fleiri á leiðinni. Meira að segja fólk sem er ekki vegan bíður í röð til að bragða á góðgætinu. By CHLOE er frábær staður til að borða í hádeginu en það er um að gera að mæta snemma til að fá borð. Staðurinn er í miklu uppáhaldi hjá Halldóri Steinssyni, yfirmatreiðslumeistara á HNLFÍ, sem segist geta borðað þarna alla daga!
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á aðalrétti: 8-10 $
Kaldpressaður safi: 10 $
RedFarm er kínverskur staður sem sérhæfir sig í dim sum (gufusoðnir bögglar sem innihalda ýmislegt grænmeti og/eða kjöt), steikum og dögurði. Maturinn er allt frá hefðbundnum réttum upp í flippaðri rétti, en Red Farm býr gjarnan til fígúrur á borð við Pacman úr matnum. Mælt er sérstaklega með Pacman-hveitibollunum og andarnúðlunum.
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á aðalrétti (kvöld): 20-50 $
Vín hússins: frá 11 $
Ilili býður upp á líbanska matseld og má þá helst nefna mezze, sem eru heitir og kaldir smáréttir. Meðal frægra rétta má nefna falafel (bollur úr kjúklingabaunum og kryddi), hummus, eggaldinkæfu, og lamba- eða andar-swharma (þykk vefja). Þessi tegund af mat er bragðmikil og inniheldur gjarnan ferska myntu, eggaldin, tómata, granatepli og annað góðgæti. Ilili er með tilboð á smáréttum, víni og kokkteilum alla virka daga frá 16-19.30.
Tripadvisor-skor: 4,5 af 5.
Verð á aðalrétti (kvöld): 22-50 $
Vín hússins: frá 11 $