„Kerfið er gallað“

Álfheiður sat fund FA og SFÚ fyrir hönd Pírata, þar …
Álfheiður sat fund FA og SFÚ fyrir hönd Pírata, þar sem meðal annars var rætt um tvöfalda verðmyndun og samkeppnishömlur í sjávarútvegi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var ein­mitt að fara að skrifa grein um sjáv­ar­út­veg­inn“, seg­ir Álf­heiður Eym­ars­dótt­ir Pírati þegar blaðamaður 200 mílna náði tali af henni nú í morg­uns­árið. Álf­heiður er stjórn­mála­fræðing­ur og skip­ar 4. sæti í stærsta stjórn­mála­flokki lands­ins miðað við nýj­ustu töl­ur.

Upp­al­in á Horna­fjarðarbryggj­unni

Álf­heiður er fædd á Höfn í Hornafirði og er dótt­ir skip­stjóra á rúm­lega 100 tonna bát. Hún seg­ist að mestu hafa al­ist upp á bryggj­unni á Hornafirði og hafa ætlað sér að verða skip­stjóri eins og faðir henn­ar. Þau áform henn­ar breytt­ust og eft­ir að hafa kynnst In­ter­net­inu hafi hún heill­ast af því og síðan lengst af unnið við tölv­ur.

Árið 2009 hóf hún rekst­ur með fé­laga sín­um sem unnið hafði sem verk­stjóri í fisk­vinnslu í Hafnar­f­irði. Þau keyptu vél­ar og tæki af því fé­lagi eft­ir að það lagði upp laup­ana og ákváðu að hefja fisk­vinnslu.

„Ég þekkti nátt­úru­lega út­gerðar­hliðina áður en þarna fékk ég að kynn­ast hinni hliðinni; vinnsl­unni, út­flutn­ingi og fisk­markaðnum,“ seg­ir Álf­heiður.

Umræðan um sjáv­ar­út­veg eins­leit

Á dög­un­um var haft eft­ir Al­berti Svavars­syni fram­kvæmda­stjóra Ísfisks á Breiðdals­vík í frétt 200 mílna að tvö­föld verðmynd­un væri í ís­lensk­um sjáv­ar­út­vegi. Lóðrétt samþætt­ar út­gerðir byggju þar við óeðli­legt for­skot á smærri vinnsl­ur og seg­ist Álf­heiður sam­mála því: „Svona er þetta og hef­ur verið mjög lengi. Þetta er einn þátta kvóta­kerf­is­ins sem mis­mun­ar fyr­ir­tækj­um en um þetta er lítið talað.“

Hún seg­ir umræðuna um sjáv­ar­út­veg fyrst og fremst snú­ast um upp­boð á afla­heim­ild­um ann­ars veg­ar og auðlinda­gjaldið hins veg­ar. „Það er bara ekk­ert talað um annað,“ seg­ir hún. „Varðandi hug­mynd­ir um all­an afla á markað, tvö­falda verðmynd­un á fiski og aðstöðumun milli smærri og stærri aðila á þess­um markaði þá er staðan sú að þetta þarf að koma fram. Þetta er staðreynd og það verður að fjalla um þetta. Það er al­veg hægt að tala um þetta á manna­máli svo fólki skilji hvað er í gangi.“

„Markaður­inn er skort­markaður“

Talsmaður stjórn­ar SFÚ deildi ný­lega hart á stjórn­völd vegna aðstæðna á inn­lend­um fisk­markaði. Sagði hann skort­markað við lýði og lóðrétt samþætt­ar stór­út­gerðir í yf­ir­burðastöðu gagn­vart fisk­vinnsluaðilum án út­gerða.

Árni Bjarna­son, for­seti Far­manna- og fiski­manna­sam­bands Íslands, setti í þessu sam­bandi fram sín­ar hug­mynd­ir í ný­legu viðtali við Kvót­ann. Þær hug­mynd­ir fela í sér að út­gerðum sem hafa yfir veiðiheim­ild­um að ráða verði í sjálfs­vald sett hvort þær taka fisk­inn áfram til sín í vinnslu á markaðsverði, eða setja hann á markað all­an eða að hluta til og kaupi síðan að ein­hverju leyti aft­ur. Með þessu móti þurfi virðiskeðjan ekki að slitna.

Stjórnmálafræðingurinn og skipstjóradóttirin Álfheiður Eymarsdóttir skipar 4. sæti á lista …
Stjórn­mála­fræðing­ur­inn og skip­stjóra­dótt­ir­in Álf­heiður Eym­ars­dótt­ir skip­ar 4. sæti á lista Pírata í Suður­kjör­dæmi. Mynd­in er aðsend.

Álf­heiður seg­ist ekki hafa heyrt þetta fyrr en sér komi á óvart að sjó­menn séu að tjá sig op­in­ber­lega um þessi mál, þar sem starfs­ör­yggi sjó­manna al­mennt sé brot­hætt. Pírat­ar vilji þó ganga lengra og vilja all­an afla á markað án und­an­tekn­inga. Þau telji það einu leiðina til þess að eðli­legt markaðsverð á fiski mynd­ist og að all­ir sitji við sama borð. Sú staðreynd að skort­markaður sé við lýði á inn­lend­um fisk­markaði verði óhjá­kvæmi­lega til þess að verðmynd­un verði alltaf óeðli­leg ef all­ur fisk­ur fari ekki á markað.

„Kerfið er gallað og virðiskeðjuna má al­veg slíta“

„Við telj­um nefni­lega að það þurfi ein­mitt að rjúfa þessa virðiskeðju. Ef stóru aðilarn­ir mega selja sjálf­um sér fisk á Verðlags­stofu­verði, vinna hann og flytja síðan út til eig­in sölu­fyr­ir­tæk­is – aft­ur á Verðlags­stofu­verði - þá gild­ir þeirra eigið verð. Svo selja þeir fisk­inn þaðan á markaðsverði. Þetta ger­ir það að verk­um að all­ur hagnaður sem verður til í grein­inni gæti mögu­lega orðið til þarna úti. Kerfið er þannig upp­byggt að það er mögu­leiki að flytja all­an arð af þess­ari sam­eig­in­legu auðlind til út­landa,“ bend­ir hún á.

„Þetta er stór kerf­is­galli. Við erum ekki að ásaka neinn um neitt, en þetta er mögu­leiki sem er inn­byggður í kerfið. Við telj­um að með því að all­ur afli fari á markað verði þetta vanda­mál leyst. Þá verður ekki hægt að flytja hagnaðinn út vegna þess að þá er alltaf fullt markaðsverð fyr­ir fisk­inn,“ seg­ir Álf­heiður.

Frjáls markaður veit­ir aðhald

Hún gef­ur lítið fyr­ir þau rök að gæðum sé telft í tví­sýnu ef virðiskeðjan slitni. Þeir sem landi sín­um afla und­ir gefn­um gæðastaðli markaðar­ins muni óhjá­kvæmi­lega fá lægra í sinn hlut fyr­ir sína vöru og þannig annað hvort þvingaðir til að gera gangskör í þeim efn­um eða helt­ast úr lest­inni ann­ars.

„Þetta eru önn­ur rök sem menn hafa notað. Við höf­um hins veg­ar eng­in rök heyrt sem koma í veg fyr­ir fram­far­irn­ar sem þess­um hug­mynd­um okk­ar fylgja,“ seg­ir Álf­heiður Eym­ars­dótt­ir.

Upp­boð á heim­ild­um alla­vega tvisvar á ári

Um reynslu Norðmanna af aðskilnaði veiða og vinnslu seg­ir hún: „Það er hægt að laga svona með upp­boði á veiðiheim­ild­um. Það er að segja, veiðiheim­ild­ir má hafa til mis­mun­andi langs tíma. Við sjá­um til dæm­is fyr­ir okk­ur að mögu­lega verði upp­boð á veiðiheim­ild­um tvisvar á ári. Við sjá­um fyr­ir okk­ur að það verði boðnar upp heim­ild­ir af öllu tagi og vilj­um hverfa frá þessi hefðbundna kvóta­ári í þess­um efn­um,“ seg­ir Álf­heiður. Hún bæt­ir við að þorsk­gengd í Nor­egi sé ekki sam­bæri­leg og við Íslands­strend­ur og hef­ur ekki áhyggj­ur af því að ekki tak­ist að laga minni hátt­ar snuðrur sem upp kunni að koma.

„Ef í ljós kem­ur, eft­ir kannski þrjú ár, að þetta er vanda­mál þá bara fínstill­um við kerfið. Ég sé hins veg­ar ekki fyr­ir mér að þetta ger­ist. Við telj­um fjöl­breytn­ina í fiski­skip­um og í sam­setn­ing­um fyr­ir­tækja eft­ir að aukast ef okk­ar hug­mynd­ir ganga eft­ir og það vilj­um við sjá verða að veru­leika,“ seg­ir Álf­heiður Eym­ars­dótt­ir.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina