„Pínu störukeppni í gangi“

Formaður Sjómannasambands Íslands segir litlar þreifingar í gangi milli aðila. …
Formaður Sjómannasambands Íslands segir litlar þreifingar í gangi milli aðila. Næsti sáttafundur verður haldinn á fimmtudag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Við getum eiginlega sagt að það sé pínu störukeppni í gangi,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands. „Það er voðalega lítið í gangi núna, en Ríkissáttasemjari hefur boðað okkur á fund á fimmtudag og þangað munum við mæta.“

Inntur eftir viðbrögðum sínum um þau orð framkvæmdastjóra SFS að fiskverð í skiptum sé sambærilegt við það verð sem fæst á markaði segir Valmundur: „Ég er með hér fyrir framan mig útskrift af verðinu eins og það er akkúrat í dag. Slægði þorskurinn er 72% af markaðsvirði dagsins, það er að segja af 95% verðsins því þessi 5% dragast alltaf frá í kostnað, svo þú sérð það nú bara sjálfur. Við erum að standa okkur ágætlega í óslægða þorskinum því það er jú miklu hærra hlutfall af honum sem kemur á markað. Það eru undir 10% af slægðum þorski sem skila sér á markað.“

Valmundur tekur fram í þessu sambandi að honum finnist þurfa að lappa upp á markaðinn þegar staðan sé sú að svo lítið af aflanum skili sér þangað. Að hans mati yrði það vafalítið til að fá sem réttast verð á fisk á markaði, sem aftur yrði til þess að deiluaðilar í sjómannadeilunni toguðust nær hvor öðrum.

mbl.is